spot_img
HomeFréttirSara Rún blés á afmæliskerti Ívars

Sara Rún blés á afmæliskerti Ívars

Haukar og Keflavík mættust í leik tvö í undanúrslitaeinvígi þeirra í dag, sem Keflavík leiðir 1-0, í Schenkerhöllinni en áður en leikurinn hófst var Ívar Ásgrímsson þjálfari Hauka leystur út með blómvendi og blöðruvendi ásamt því að afmælissöngurinn var sunginn fyrir kallinn en hann er fimmtugur í dag.

 

Hann fékk þó ekki óska afmælisgjöfina þar sem Keflavík hafði að lokum 67-74 sigur í skemmtilegum leik þar sem liðin skiptust á að eiga góða og slæma kafla. Keflavík byrjaði einmitt fremur illa en fóru síðan í fullorðinsbuxurnar og fóru að spila glimmrandi vel og tókst að klára leikinn þrátt fyrir að detta inn í slaka kafla inn á milli þar sem Haukar fóru á kostum. Svekkjandi fyrir Hauka sem spiluðu ágætlega í dag þrátt fyrir allt og eru þær komnar 0-2 undir og þurfa þær að reiða fram sérstaklega góða fammistöðu á þriðjudaginn vilji þær ekki fá kústinn fræga í hausinn í Keflavík.

 

Haukastúlkur byrjuðu sterkt og voru komnar í 7-2 eftir aðeins 1 mínútu og 12 sekúndur. Eftir það færðist smá ró yfir leikinn í nokkrar mínútur en þá kom aftur kippur í stigaskorun þar sem Haukarnir skoruðu 6 stig gegn 4 stigum Keflavíkur á rétt rúmri mínútu og staðan þá 13-8. Haukarnir héldu áfram að bæta við og komust þær 9 stigum yfir áður en Keflavík tókst að svara. En Keflavík svöruðu vel og enduðu leikhlutan á 6-0 áhlaupi. Staðan því 17-14 eftir fyrsta leikhlutann. Annars var lítið að gerast í sóknarleik Keflvíkinga og var það aðeins Carmen Tyson-Thomas sem sýndi einhvern lit þar sem hún var með 10 stig á meðan að ábyrgðin dreifðist mun betur hjá Haukunum. En Haukar spiluðu mjög stífa vörn sem sýndi sig í 7 villum í fyrsta leikhlutanum.

 

Það var allt annað að sjá til Keflavíkur í upphafi annars leikhluta en þær fóru að spila fulla pressu sem kom Haukunum í töluverð vandræði. En Haukastúlkur áttu 6 tapaða bolta á fyrstu fimm mínútum leikhlutans ásamt því að Keflavík tókst að jafna 24-24 þar sem Sara Rún Hinriksdóttir var mest áberandi með 6 stig. Ívar Ásgrímsson sá ekkert annað í stöðunni en að taka leikhlé á þeim tímapunkti. Það virkaði vel því eftir það kom meiri yfirvegun í leik Hauka og áttu þær 7-0 kafla og komust yfir 33-26 áður en Keflavík tókst að svara. Keflavík voru í bullandi vandræðum í vörninni og brutu í þrígang á Haukum á innan við mínútu og sendu þær í hvert skiptið á góðgerðarlínuna þar sem bónusinn var löngu kominn en Keflavík voru í heildina með 10 villur í leikhlutanum. Keflavík enduðu þó fyrri hálfleikinn á mannsæmandi hátt þar sem þær skoruðu 5 stig engu stigi Hauka seinustu mínútuna og staðan í hálfleik því 39-33, töluvert betri en stefndi í fyrir þær bláklæddu.
Í hálfleik voru Carmen Tyson-Thomas með 16 stig og 7 fráköst fyrir gestina og Sara Rún Hinriksdóttir með 8 stig (öll í öðrum leikhluta) og 5 fráköst.
Hjá heimastúlkum var Lele Hardy atkvæðamest eð 14 stig og 10 fráköst og næstar henni voru María Lind Sigurðardóttir og Auður Íris Ólafsdóttir með 8 og 7 stig hvor.

 

Keflavík byrjuðu seinni hálfleik af bylmingskrafti og skoruðu 7-0 á fyrstu tveimur mínútunum til að koma sér yfir 39-40. Þær létu ekki við staðar numið þar og komu sér í 41-44 og svo enn betur stuttu síðar og leiddu með fimm stigum 43-48 þegar leikhlutinn var hálfnaður, 15-4 kafli hjá Keflavík. Þá mættu Haukar loks til leiks í seinni hálfleiknum og jöfnuðust leikar næstu mínúturnar en síðan tóku Haukar á rás og enduðu leikhlutann á 7-0 kafla þar sem Auður Íris Ólafsdóttir og Lele Hardy settu sitt hvoran þristinn til að minnka muninn í 52-53 fyrir loka átökin.

 

Fjórði leikhlutinn var í miklum járnum í upphafi þar sem hart var barist hjá báðum liðum á báðum vígstöðum en engu að síður lítið um villur. Keflavík sigu aðeins fram úr um miðbik leikhlutans og leiddu 56-61 eftir fjögur stig í röð frá Carmen Tyson-Thomas. Þá tók við þriggjastigaskotsýning sem Guðrún Ósk Ámundadóttir koma af stað en Sara Rún Hinriksdóttir svaraði því strax í næstu sókn áður en Þóra Kristín Jónsdóttir og Lele Hardy smelltu niður tveimur til viðbótar fyrir Hauka og staðan að því loknu 67-68 með tvær mínútur til stefnu. Sara Rún Hinriksdóttir smellti síðan niður algjörum rýting þegar 40 sekúndur voru eftir og kom Keflavík í 67-72. Haukar sendu hana síðan á línuna og tryggði hún því Keflavík 67-74 sigur og leiðir Keflavík nú 2-0 í einvíginu.

Tölfræði leiksins

Myndasafn eftir Axel Finn Gylfason

 

Viðtöl:

 

 

Fréttir
- Auglýsing -