spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaSanngjarn sigur ÍR á Breiðablik

Sanngjarn sigur ÍR á Breiðablik

Breiðablik tóku á móti Breyðhyltingum í kvöld í Smáranum í Kópavogi. Fyrir leikinn var Breiðablik í 5. sæti með 16 stig, en ÍR-ingar í næst neðsta sætinu með 8 stig. Mikilvægur leikur fyrir bæði lið, þó sýnu mikilvægari fyrir ÍR. Leikurinn endaði með sigri ÍR, 91-104.

Stuðningsmenn ÍR byrjuðu fyrir leik að kalla nafn Colins Pryor og við héldu síðan fantagóðri stemmingu allan leikinn. En leikurinn byrjaði fjörlega, eins og allir leikir Breiðabliks. Bæði lið spiluðu frekar hratt og með stuttar sóknir. Þegar tæpar 3 mínútur voru eftir, leiddu ÍR leikinn, 17-25. Blikarnir réðu ekkert við Taylor sem sótti stöðugt á hringinn og yfirleitt skoraði hann og fiskaði villu og víti að auki. Blikarnir bitu frá sér í lokin og endaði fyrsti leikhluti 25-30.

Það var frekar jafnt í byrjun annars leikhluta, ÍR-ingar þó ívið sterkari, þó munurinn lægi helst í að þeir hittu ofan í á meðan það gekk brösulega hjá Blikunum. ÍR var töluvert sterkari í öðrum leikhluta, hreyfðu boltann mun betur en Blikar og spiluðu líka smá vörn á meðan hún var lítil sem engin hjá Kópavogspiltum. Leikar í hálfleik, 46 – 61.

ÍR-ingar héldu áfram í seinni hálfleik eins og þeir luku við fyrir hálfleikinn. Sýndu töluvert meiri baráttu og hittu lika betur. Þegar 3:31 mínúta var eftir var staðan 54-75, þá tók Pétur leikhlé. Stuðninsgmenn ÍR enn mjög lifandi á pöllunum, virkilega gaman að sjá. Leikhléið dugði þó lítið, ÍR hélt góðri forystu út leikhlutann, 68-86.

Í byrjun 4. leikhluta kom loksins einhver smá barátta í Blikana, bæði vörn og sókn. Náðu aðeins að saxa á forskotið, nóg til þess að Ísak tók leikhlé í stöðinni 75-90 og tæpar 7 mínútur eftir. Það dugði til að stoppa þessa míni-blæðingu því Blikarnir skoruðu ekki stil í næstum tvær mínutur, þá tók Pétur leikhlé.

Hjá ÍR var að koma framlag frá ansi mörgum, Taylor Johns sem fór hamförum í fyrri hálfleik, var rólegri  í seinni hálfleik, enda Blikarnir aðeins farnir að stíga hann betur út. Hann endaði leikinn með 18 stig og 17 fráköst. Colin Pryor átti einnig fanta góðan leik, með 16 stig. Einnig skilaði Hákon Örn fínu dagsverki.

Það var fátt um fína drætti hjá Blikunum. Everege var þeirra besti maður, með 22 stig og Jeremy kom næstur með 21 stig. Þá vantaði ekki baráttuna í Sigurð Pétursson. Julio De Assis var ekki með og munaði um minna.

ÍR vann þennan leik mjög sanngjarnt, fráköstuðu miklu betur og voru einnig með betri skotnýtingu. Svo rúllaði ÍR yfir Blikana á pöllunum, hreint stórkostlegir og skemmtilegir.

Næstu leikir þessara liða fer fram 16. febrúar og fara Breiðabliksmenn til Njarðvíkur á meðan ÍR-ingar bjóða Haukum í heimsókn.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -