spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaSannfærandi sigur Stólanna á Val

Sannfærandi sigur Stólanna á Val

Körfuboltinn skoppaði af stað á Króknum í kvöld þegar Tindastóll tók á móti Val í lokaleik fyrstu umferðar Subway deildarinnar í Síkinu í kvöld.

Liðin eru töluvert breytt frá síðasta tímabili og talsverður haustbragur á leiknum í fyrsta fjórðung leiksins. Valsmenn fóru betur af stað og oft var ráðleysi í sóknarleik heimamanna. Gestirnir gengu á lagið og leiddu eftir fyrsta fjórðung 16-21. Heimamenn í Tindastól áttuðu sig þó fljótlega í öðrum leikhluta og fóru að taka fastar á gestunum og sóknarleikurinn fylgdi í kjölfarið. Áhlaupið hófst fyrir alvöru með góðum þrist frá Arnari úr horninu sem kom Tindastól yfir 30-29 um miðjan leikhlutann og Stólar lokuðu svo hálfleiknum með 15-6 kafla sem færði þeim 10 stiga forystu í hálfleik 45-35.

Þriðji leikhluti fór mjög rólega af stað hjá báðum liðum sóknarlega og um miðjan leikhluta voru einungis 11 stig komin á töfluna. Heimamenn áttu níu af þeim og má segja að þessi kafli í upphafi seinni hálfleiks hafi klárað leikinn. Munurinn jókst og varð nítján stig í upphafi fjórða leikhluta þegar Drangeyjarjarlinn Helgi Rafn setti þrist úr horninu 62-43. Heimamenn slökuðu þó full mikið á í lokaleikhlutanum og Valsmenn komu muninum niður í 10 stig þegar enn voru rúmar þrjár mínútur eftir af leiknum og það er enginn munur í körfubolta, ekki síst þegar Kári Jóns er í liðinu sem eltir. Kári fékk gott færi á að koma muninum í 7 stig þegar rétt undir 2 mínútur lifðu leiks en klikkaði á opnu skoti og Arnar kláraði leikinn með þristi hinumegin þegar mínúta var eftir.

Hjá Tindastól var Siggi Þorsteins frábær með 16 stig og 13 fráköst og Javon Bess skilaði 19 stigum og reif niður 6 fráköst. Að auki var Thomas Massamba traustur með 8 stig og 8 stoðsendingar. Gestirnir réðu ekki við sterkan varnarleik heimamanna og þegar leið á leikinn sást munur á dýpt liðanna á bekknum. Bertone og Kári Jóns voru atkvæðamestir en nokkuð skorti upp á framlag frá mönnum eins og Hjálmari og Lawson sem verða að stíga upp ætli Valur að blanda sér í baráttu efri liða í deildinni.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir & viðtöl / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -