Þessi myndbútur hér að neðan er úr öðrum leik OKC og San Antonio Spurs. Hér sést mjög vel hvað allir þekkja sínar stöður í kerfunum, hafa gott bil á milli sín og tímasetja allar hreyfingar eftir hárfínni nákvæmni.
Thabo Sefolosha og Perry Jones trappa Manu Ginobili við vinstra hornið. Hann leyfir þeim að koma og jafnvel fer innar í hornið til að fá þá nær sér. Boris Diaw flassar að körfunni sem dregur Steven Adams dýpra inn í teiginn og lengra frá Tim Duncan. Kevin Durant, sem á að vera að gæta Danny Green missir sjónar af honum í augnablik þar til hann fær fjall í bakið sem heitir Tim Duncan. Green sleppur aleinn niður í hornið. Þá hefur Perry Jones farið upp til að pikka aftur upp Diaw og við það opnast sjónlínan milli Ginobili og Green.
Manu neglir sendingu, sem aðeins hann gæti framkvæmt, beint í hendurnar á Green sem neglir galopnum þrist og munurinn fer úr 5 í 8 stig.
Þetta er kallað “baseline hammer” eða endalínuhamarinn. Kerfi sem Spurs nota mikið.
Takið eftir tímasetningunni hjá öllum leikmönnum. Hárnákvæmar á hárréttum augnablikum. Takið einnig eftir öllum möguleikunum sem opnast við þetta. Hefði Adams ekki lokað teignum hefði Diaw getað stungið sér inn og fengið sendinguna. Parker er einnig kominn á vinstri vænginn á réttum tíma til að fá sendinguna í galopinn þrist þaðan.