spot_img
HomeFréttirSan Antonio sluppu með skrekkinn

San Antonio sluppu með skrekkinn

11:28:18
San Antonio komst aftur á topp Suð-vesturriðils í NBA-deildinni eftir nauman sigur á Golden State Warriors í nótt. Á sama tíma töpuðu Houston fyrir Utah og Lakers unnu næsta léttan sigur á Oklahoma Thunder. Loks vann Chicago góðan sigur á Detroit og stefnir hraðbyri að því að komast upp fyrir Pistons fyrir úrslitakeppnina.

 

Eftir að hafa kastað frá sér tveimur leikjum í röð á síðustu sekúndunum náðu San Antonio að halda haus í nótt þegar þeir lögðu Golden State, 107-106. Roger Mason gerði sigurkörfuna þegar um 24 sek voru eftir af leiknum og fögnuðu Spurs vel í lok leiks eftir að lokaskot Monta Ellis missti marks.

 

Tony Parker var með 30 stig og 10 stoðsendingar fyrir Spurs og Tim Duncan 21 stig og 10 fráköst. Duncan skoraði 13 stig í lokafjórðungnum og hélt sínum mönnum á floti. Ellis var með 27 stig fyrir Warriors og Stephen Jackson var með 18. Jackson, sem er helsta stjarna Warriors verður mögulega ekki með liðinu meira á þessu tímabili þar sem hann gæti kosið að fara í aðgerð vegna meiðsla á tá.

 

Lakers gátu leyft sér að hvíla lykilmenn sína allan fjórða leikhluta á móti Oklahoma Thunder og unnu samt sannfærandi, 107-89. Þeir leiddu allan tímann og var staðan 62-38 í hálfleik þegar Lakers steig af bensíngjöfinni.

Kobe Bryant var með 19 stig, Lamar Odom 18 og Pau Gasol var með 14 stig og 14 fráköst. Hjá Thunder var Kevin Durant með 24 stig.

 

Utah færðu sér í nyt slakan leik hjá lykilmönnum Houston Rockets, Ron Artest og Yao Ming og unnu mikilvægan sigur, 99-86, í baráttunni um heimavallarrétt í úrslitum Vesturdeildarinnar.

 

Artest og Yao hittu samtals úr 11 af 38 skotum sínum í leiknum og skipti litlu þó Aaron Brooks og Shane Battier ættu góðan leik, því allir bestu menn Jazz skiluðu sínu og nægði það til sigurs.

 

Deron Williams var með 19 stig og 12 stoðsendingar fyrir Jazz og Ronnie Brewer bætti við 18. Brooks var með 20 stig og Battier 18 fyrir Rockets.

 

Loks unnu Chicago Bulls vængbrotið lið Detriot Pistons, 99-91. Pistons léku án Allen Iverson, Rip Hamilton og Rasheed Wallace, en Bulls voru líka án Derrick Rose.

 

Í fjarveru Rose gat Kirk Hinrich rifjað upp gamla tíma þegar hann var aðalleikstjórnandi Bulls og hann brást vel við með því að skora 24 stig og gefa 8 stoðsendingar. Ben Gordon bætti við 19 stigum og Tyrus Thomas var með 18 stig og 12 fráköst. Hjá Pistons voru Tayshaun Prince og Will Bynum með 20 stig hvor.

 

Chicago er eftir sigurinn í góðum málum þar sem þeir juku forskot sitt á Milwaukee og Charlotte í áttunda sætinu og eru einungis einum leik frá því að skáka Detroit í því sjöunda.

 

Hér má finna tölfræði leikjanna í nótt.

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -