spot_img
HomeFréttirSamkaupsmótið getur enn stækkað

Samkaupsmótið getur enn stækkað

14:15 

{mosimage}

 

 

Reykjanesbær mun iða af mannlífi um helgina þegar hundruðir ungra körfuknattleiksiðkenda streyma í bæinn til þess að skemmta sér í körfubolta á Samkaupsmótinu. Mótið er vafalaust stærsta körfuknattleiksmótið á Íslandi og er haldið í samvinnu unglingaráða Körfuknattleiksdeilda Keflavíkur og Njarðvíkur. Falur Harðarson á von á um 1000 krökkum í mótið og hefur staðið í ströngu að undanförnu við skipulagningu mótsins en krakkarnir munu hafa nóg fyrir stafni.

 

,,Það eru 137 lið skráð í mótið og ef við gefum okkur að það séu um sjö manns í liði að meðaltali þá eru þetta rúmlega 950 krakkar sem eru að fara að mæta og svo verður bara að koma í ljós hversu margir skila sér,” sagði Falur sem jafnan er titlaður framkvæmdastjóri mótsins. ,,Í fyrra mættu ekki nema 850 manns en þá var landlæg flensa að ganga en við vitum nákvæmlega um miðjan laugardag hveru margir þátttakendur eru í mótinu. Þetta er alltaf jafn skemmtilegt og mikil vinna sem fer í Samkaupsmótið en þetta gerir mikið fyrir bæjarfélagið,” sagði Falur en mótið í fyrra var stærsta Samkaupsmótið sem nokkurntíman hefur verið haldið. ,,Þetta hófst sem Kókómjólkurmótið hjá Keflavík en svo kom Samkaup inn í þetta og Keflavík og Njarðvík fóru að standa að þessu saman. Sjálfur byrjaði ég í þessu fyrir sex eða sjö árum og þá taldi stærsta mótið um 350 krakka.”

 

Mikill áhugi er fyrir Samkaupsmótinu ár hvert og hefur það jafnan farið stækkandi milli ára og sjá skipuleggjendur fram á að mótið geti orðið enn stærra í framtíðinni. ,,Þegar íþróttahúsið við Akurskóla verður tilbúið munum við geta leikið á 14 völlum en um helgina verður leikið á 12 völlum svo Samkaupsmótið getur enn stækkað,” sagði Falur sem mun hafa yfirumsjón með um 350 leikjum um helgina.

 

Samkaupsmótið hefst kl. 09:00 á laugardag og verður hægt að nálgast leikjaniðurröðun og nánari upplýsingar á vefsíðunum www.keflavik.is og www.umfn.is

 

Frétt og mynd af www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -