spot_img
HomeFréttirSagt eftir leik í Sláturhúsinu

Sagt eftir leik í Sláturhúsinu

13:35
{mosimage}

(Signý Hermannsdóttir) 

Keflavík hafði nauman 93-84 sigur á Val í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik í gær. Karfan.is ræddi við þær Signýju Hermannsdóttur, Val, og Pálínu Gunnlaugsdóttur, Keflavík, í leikslok. 

Signý: 

,,Sigur hefði hjálpað okkur mikið í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni. Við vorum alltof lengi klaufalegar á móti pressu Keflavíkur og það var of mikið panikk í okkar leik og það hafði veruleg áhrif,” sagði Signý en ekki er enn öll nótt úti hjá Val þar sem 10 stig eru í pottinum fyrir Hlíðarendastúlkur sem berjast hart við Hauka um sæti í úrslitakeppninni. Fjögur stig skilja liðin að og eru 8 stig í boði fyrir Hauka. 

,,Það vantar ekki meira þol í okkar hóp, það er í fínu lagi en það er frekar að þegar við eigum slæma kafla eigum við erfitt með að finna leikmenn til aðkoma inn og breyta okkar leik þar sem við erum svo fáar og þá geta slæmu kaflarnir okkar orðið ennþá verri,” sagði Signý en Keflvíkingar keyrðu vel upp hraðann í leiknum enda með breiðari hóp og högnuðust á því þar sem Valskonur virtust þreyttar á lokasprettinum.  

,,Þegar við spilum saman þá getum við allt en þegar við erum ekki að spila saman þá náum við ekki útisigrum á völlum eins og í Keflavík. Deildin er mjög skemmtileg en þetta var súrt, svona er þetta bara,” sagði Signý sem gerði 16 stig, tók 10 fráköst og varði 8 skot fyrir Valskonur í gær.  

Pálína: 

,,Það hefur alltaf verið markmiðið okkar að taka alla titlana sem eru í boði og við misstum af bikarkeppninni með tapi í Grindavík og það var mjög súrt,” sagði bakvörðurinn Pálína Gunnlaugsdóttir í leikslok og ljóst að bikarósigurinn gegn Grindavík situr enn töluvert í Keflvíkingum. 

Heimakonur voru seinar í gang í gær: ,,Við vorum ekki tilbúnar í upphafi leiks og það hefur gerst alltof oft hjá okkur í vetur að við erum ekki klárar þegar boltinn fer af stað, sér í lagi núna eftir áramót,” sagði Pálína en bætti við að það væri merki um styrk Keflavíkurliðsins að vera enn á toppi deildarinnar þrátt fyrir að hafa ekki verið að leika sinn besta bolta undanfarið.  

,,Framundan er bjart og ég er viss um að við tökum deildarmeistaratitilinn og Íslandsmeistaratitilinn,” sagði Pálína en við báðum hana að skjóta á hvort Haukar eða Grindavík yrðu bikarmeistarar. ,,Það lið vinnur sem langar það meira, það getur allt gerst í bikarnum,” var svarið. 

[email protected]

{mosimage}

(Pálína)

Fréttir
- Auglýsing -