spot_img
HomeFréttirSagt eftir leik í Röstinni: Friðrik, Nick og Valur

Sagt eftir leik í Röstinni: Friðrik, Nick og Valur

21:36
{mosimage}
(Friðrik Ragnarsson)

Liðsauki væntanlegur í Ljónagryfjuna!

Karfan.is ræddi við þá Friðrik Ragnarsson, Val Ingimundarson og Nick nokkurn Bradford eftir Suðurnesjaeinvígi Grindavíkur og Njarðvíkur. Einvígið varð snemma að einstefnu þar sem Grindvíkingar sýndu mátt sinn en Njarðvíkingar eiga von á liðsauka í erlendum leikmanni sem hugsanlega gæti klæðst grænu í bikarleik Njarðvíkur og Stjörnunnar um helgina.

Friðrik Pétur Ragnarsson þjálfari Grindvíkinga:

Þetta var bara svona eins og léttur göngutúr hjá Grindavíkurliðinu í kvöld!
Já í sjálfu sér má segja það. Njarðvíkingar eru með ungt lið en við erum með mikla reynslu í okkar liði og svona eftir á að hyggja má kannski segja að þetta sé ójafn leikur. Ég tek samt ofan af fyrir Njarðvíkingum því mér fannst þeir vera að berjast vel og Logi setti náttúrulega bara upp flugeldasýningu í fyrri hálfleik. Mér fannst þetta þó vera tímaspursmál um hvenær við næðum að herða á vörninni og þegar það gerðist þá var þetta mjög öruggur sigur?

Þið eruð komnir með nýjan liðsmann í Nick Bradford. Telur þú að hann verði kominn allur inn í ykkar hluti strax í næsta leik?
Já, engin spurning og ég var t.d. mjög ánægður með hans framlag í kvöld miðað við það ferðalag sem hann var að koma úr. Nick lenti í morgun eftir langt og strangt ferðalag og ég hef engar áhyggjur af honum og hann á eftir að falla eins og flís við rass í okkar leik.

Hvaða hlutverk ætlar þú honum í ykkar leik?
Ég mun spila hann 4,5,3 og hann verður svona ,,allt muligtman“ hjá okkur. Hann er varnarhákur og stemmningsleikmaður og við erum að fá flottan liðsmann. Við erum ekki að fá okkur leikmann sem á að bjarga heiminum heldur á hann að gera hópinn breiðari, sterkari og betri og ég er pottþéttur á því að hann geri það.

{mosimage}
Nick Bradford leikmaður Grindavíkur:

Hvernig kanntu svo við þig núna í Grindavíkinni?
Bara mjög vel og það hafa allir tekið mér opnum örmum og ég er hæstánægður með að vera kominn til Íslands á ný.

Áttu eitthvað í land með að komast í þitt besta form?
Já því ég hef ekki spilað í smá stund en hef verið í ræktinni en það er eitt að vera í góðu formi og svo leikformi. Vonandi næ ég þó upp fullu leikformi á næstu dögum.

Grindvíkingar eru færir um að skora fjölda stiga en hvað vonast þú til að færa liðinu og hvers er ætlast af þér í Röstinni?
Okkur hefur ekki enn gefist tími til að ræða þessi mál ítarlega en persónulega vonast ég til þess að verða fastur fyrir í varnarleiknum og ef við verðum sterkir fyrir í vörninni þá kemur sóknin. Í sókninni vonast ég svo bara til þess að vera ógnandi, finna opna leikmanninn, draga að mér tvídekkun og svo skora þegar færi gefst.

Ertu spenntur fyrir að mæta þínum gömlu félögum í Keflavík?
Já vissulega en ég reyni að einbeita mér að einum leik í einu en ég hef fylgst vel með boltanum hér á Íslandi og vissi því að ég væri að koma í gott lið þegar Grindvíkingar höfðu samband.

{mosimage}
Valur Ingimundarson, þjálfari Njarðvíkinga:

Var þetta svona eins og við var að búast? Grindvíkingar þjörmuðu vel að bakvörðum Njarðvíkurliðsins!

Það munaði miklu um að Friðrik Stefánsson var ekki alveg tilbúinn í þennan leik því hann hefur verið að glíma við smá meiðsli undanfarið. Þá vantaði sjálfstraust í þetta verkefni en menn eins og Logi voru að spila alveg glimrandi sem og Magnús og ungu guttarnir Ólafur Helgi og Styrmir en Grindvíkingar hittu eins og brjálæðingar í fyrri hálfleik og það er erfitt að halda í við það. En eins og ég segi þá verðum við bara að gleyma þessum leik og fara að einbeita okkur að leiknum gegn Stjörnunni sem er með eitt heitasta liðið í dag og nýbúið að leggja Grindvíkinga!

Þar mætir þú þínum gamla liðsfélaga Teiti Örlygssyni, veist þú ekki nákvæmlega hvað hann mun gera með sína menn á sunnudag?
Nei nei, ég hef s.s. aðeins séð af Stjörnuliðinu síðan Teitur tók við og þeir verða mjög erfiðir og ef við spilum svona eins og við gerðum í kvöld þá verðum við bara drepnir.

Raddir um að liðsstyrkur sé að berast í Ljónagryfjuna hafa verið háværar undanfarið, er eitthvað til í þessu?
Við erum í neyð í dag svo það er hugsanlegt að það verði kominn til okkar nýr liðsmaður fyrir sunnudaginn. Við vildum vera í þeirri stöðu að þurfa ekki fleiri leikmenn og við reyndum að fá íslenska leikmenn en þar gripum við í tómt og því ákváðum við að gera þetta. Leikmaðurinn er í ódýrari kantinum og vonandi kemur hann til með að skila einhverju góðu inn í liðið því það veitir ekki af.

Verður hann leikstjórnandi?
,,Við skulum bara hafa sem fæst orð um þetta því þá geta menn farið að skoða hann á Youtube,“ sagði Valur sposkur og hafði lúmskt gaman af því að kvelja forvitinn blaðasnáp. ,,Ég er samt mjög stoltur af liðinu mínu það sem af er og margir af ungu leikmönnunum okkar hafa fengið mikla reynslu en okkur vantar meiri breidd í hópinn og því verður þessi nýji leikmaður vonandi kominn með leikheimild á sunnudag,“ sagði Valur Ingimundarson.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -