spot_img
HomeFréttirSagt eftir leik í Röstinni

Sagt eftir leik í Röstinni

23:19
{mosimage}

 

(Friðrik Ragnarsson þjálfari Grindavíkur) 

 

Þeir voru sveiflukenndir hálfleikarnir hjá þeim Ken Webb og Friðriki Ragnarssyni þjálfurum Grindavíkur og Skallagríms í kvöld. Grindavík hafði 106-95 sigur á Sköllunum í kvöld en á meðan Friðrik Pétur gat brosað breitt í fyrri hálfleik þá gerði Ken Webb eitthvað svipað í þeim síðari.

 

Grindvíkingar voru grjótharðir í fyrri hálfleik með Pál Axel ofurheitan og leiddu 57-40 en Borgnesingar léku frábærlega í síðari hálfleik en of mikið púður fór hjá þeim í að saxa niður forskot heimamanna og á endanum sprungu þeir á limminu. Karfan.is ræddi við þá Webb og Friðrik í leikslok og þetta höfðu kapparnir að segja:

 

Friðrik Pétur Ragnarsson þjálfari Grindavíkur

 

Við mættum í seinni hálfleikinn eins og við gerum oft þegar við erum búnir að ná forskoti. Förum þá oft í þetta á rólegu nótunum og ætlum bara að hafa rómantískt kvöld en þetta er ekkert svoleiðis því um leið og þú slakar á þá tekur það ekki nema fimm mínútur fyrir hitt liðið að koma sér inn í leikinn.

 

Lið með drápseðli klára leikina sína þó andstæðingarnir nái á köflum að klóra í bakkann og það var einmitt það sem við gerðum í kvöld. Þó Skallagrímur hafi komið muninum niður í þrjú stig í síðari hálfleik þá er það styrkur hjá okkur að hafa skipt um gír og náð að klára leikinn. Við getum spilað miklu betur en við gerðum í seinni hálfleik en við vorum mjög góðir í fyrri hálfleik. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er þetta bara einn sigur og við lítum á síðari hálfleikinn í kvöld sem góða viðvörun.

 

Við spiluðum varnarleikinn í seinni hálfleik eins og kjánar, það verður bara að segjast eins og er, það er hlutur sem við förum vel yfir á morgun. Þeir skoruðu örugglega um 30 stig í seinni hálfleik sem þeir fengu bara gefins þegar vörnin okkar opnaðist upp á gátt og það á ekki að gerast í meistaraflokki karla. Við förum yfir þetta á morgun og lögum þetta og verðum sterkari fyrir vikið í Borgarnesi.

 

{mosimage}

(Ken Webb)

 

Ken Webb þjálfari Skallagríms

 

Þegar þú lendir 26-27 stigum undir gegn sterku körfuboltaliði er virkilega erfitt að komast aftur upp úr þeirri holu. Við náum samt að koma muninum niður í þrjú stig í síðari hálfleik en það var ekki nóg enda töluverð orka sem fór í það að minnka muninn. Þetta er hlutur sem hefur verið að gerast að undanförnu hjá okkur, við lendum illa undir snemma í leikjunum og erum lengi vel að saxa niður forskotið hjá andstæðingum okkar.

 

Við gerðum vel að komast aftur inn í leikinn svo við höfum vissulega eitthvað til þess að hlakka til á næstunni. Nú munum við bara fara á æfingu á morgun, gera nokkrar breytingar og slípa okkur enn frekar og koma klárir í leikinn á sunnudag.

 

Liðið hefur átt í nokkrum vandræðum þessa leiktíðina með meiðsli en ég er ekki mikið fyrir það að vera að afsaka mig. Margir okkar lykilleikmanna hafa verið nokkuð í meiðslum en við sýndum nú hér í síðari hálfleik hvað í okkur býr og vonandi getum við tekið það besta úr síðari hálfleiknum okkar í kvöld og komið með það inn í leikinn á sunnudag. Nú er okkar eina markmið að vinna leikinn á sunnudag og knýja fram oddaleik í Röstinni.

 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -