spot_img
HomeFréttirSagt eftir leik í Iðu:

Sagt eftir leik í Iðu:

10:00

{mosimage}

Valsmenn tóku forskotið í einvígi þeirra við FSu um laust sæti í Iceland Express-deild karla á næsta ári með sigri á Selfossi í gærkvöldi. Karfan.is spjallaði við þjálfara liðanna eftir leik.


Rob Hodgson og Sævaldur Bjarnason:

Þjálfarateymi Valsmanna gátu keyrt glaðir yfir heiðina eftir útisigur á FSu í fyrsta leik úrslitarimmu um sæti í Iceland Express deildinni að ári. Þeir voru mjög ánægðir með leik sinna manna. ,,Við erum ánægðir, þetta er erfiður útivöllur til að mæta á og þeir hafa aðeins tapað einum leik hérna á leiktíðinni. Pressan er á þeim núna og við eigum líka sterkan heimavöll svo það verður brjáluð stemming á sunnudaginn.”

 

Stuðningsmannalið Valsmanna vakti athygli fréttaritara Körfunnar en það sást að um úrslitarimmu væri að ræða. ,,Við fengum frábæran stuðning í kvöld, fullt af fólki og góður leikur hjá báðum liðum. Þetta eru leikirnir sem maður vill þjálfa, mikið af fólki, hátt spennustig og stemmingin sem maður hlakkar til að upplifa.”

 

Sævaldur vildi meina að lykilinn að sigrinum í kvöld hafi verið góð vörn. ,,Við spiluðum frábæra vörn, það kom bakslag í leik okkar manna í þriðja leikhluta en við komum til baka og spiluðum góða vörn.” Sóknarleikur beggja liða var ekki uppá marga fiska í leiknum. ,,Sóknarleikurinn okkar var ekkert sérstakur en við þraukuðum, við spiluðum ágætis sóknarleik undir lokin og það var það sem taldi.” Rob var samur við sig og hvatti landan til að mæta á annan leik þessara liða á sunnudaginn í Vodafonehöllinni. ,,Hver sá sem vill sjá góðan körfuboltaleik ætti að mæta, þetta verða tvö góð lið að berjast.”

Brynjar Karl Sigurðsson:

Brynjar Karl þjálfari FSu var ekki mjög málglaður eftir leikinn við Valsmenn en hann var að vonum nokkuð svekktur með úrslitin. Hann vildi þó ekki meina að þetta væri orðið erfitt. ,,Við ætlum að vinna þennan leik á sunnudaginn.” Hann vildi meina að það sem hafði orðið sínu liði að falli í leiknum væri einfaldlega spennustigið. ,,Ég held að spennustigið hafi bara verið of hátt fyrir mína menn og við höfum bara ekki verið nógu andlega reddý.”

Leikurinn var eins og áður hefur komið fram hnífjafn og munaði ekki miklu að FSu tæki sigurinn á lokasekúndum venjulegs leiktíma. ,,Þetta gat farið hvoru megin sem var, við hefðum getað klárað þetta með síðasta skotinu fyrir framlengingu. Ég fékk það bara á tilfininguna þegar það voru tvær þrjár mínútur eftir að það væri einhver skjálfti í okkur. Það er bara eitthvað sem við þurfum að hrista úr okkur.”

Brynjar var þó tilbúinn að viðurkenna að leikurinn hefði verið mjög skemmtilegur fyrir hinn almenna körfubolta unnenda. ,,Þetta eru forréttindi að spila svona leiki, algjör forréttindi.”

Leikur nr. 2 er á sunnudagskvöld kl. 19:15 í Vodafonehöllinni.

Gísli Ólafsson

Myndir: [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -