spot_img
HomeFréttirSagt eftir leik í Hólminum

Sagt eftir leik í Hólminum

11:56
{mosimage}

 

(Kotila leggur á ráðin í Röstinni) 

 

Bikarmeistarar Snæfells eru í lykilstöðu gegn Grindavík eftir að hafa unnið annan leik liðanna í Stykkishólmi í gærkvöldi. Karfan.is ræddi við þjálfara liðanna þá Geof Kotila og Friðrik Ragnarsson í leikslok.

 

Geof Kotila

 

Grindvíkingar komu til okkar í Hólminn til þess að sanna eitthvað og þeir gáfu okkur allt sem þeir áttu á fyrstu 5-6 mínútunum í leiknum. Það var svakaleg sýning hjá þeim en ég varð ekkert smeykur við þessa frammistöðu þeirra því ég hef séð þetta áður og venjulega kólna svona lið þar sem þau geta ekki leikið svona glimrandi allan leikinn. Annars vitum við það að Grindvíkingar munu mæta nákvæmlega svona til leiks á laugardag. Við ræddum um þetta og vorum t.d. 2-1 yfir gegn KR í fyrra og vorum að óska hverjum öðrum til hamingju með að vera komnir áfram í úrslit en þetta er ekki búið fyrr en þetta er búið.

 

Ef Grindavík leikur vel á laugardag þá geta þeir vel komið í fjórða leikinn í Stykkishólm. Nú er okkar helsta verkefni að undirbúa okkur andlega fyrir laugardaginn því við munum örugglega halda að það verði auðvelt að fara í Grindavík á laugardag en það verður sko allt annað uppi á teningnum. Vissulega er erfitt að glíma við undirmeðvitundina þegar þú ert 2-0 yfir og þarft bara einn leik til viðbótar en það sem þú getur gert er að berjast eins og brjálæðingur til að yfirstíga þann þankagang. Það mun ég reyna að gera.

 

Leikurinn verður örugglega eitthvað frábrugðinn því sem hefur gerst í fyrstu tveimur leikjunum og álagið kannski farið að segja til sín og hver veit nema báðum liðum takist að kreista eitthvað gott fram hjá leikmönnum sínum sem koma af bekknum.

 

{mosimage}

 

Friðrik Ragnarsson

 

Ég veit satt best að segja ekki hvað þetta er hjá okkur, ég skil það ekki alveg. Við byrjum leikinn af krafti, stjórnum hraðanum og þá er allt í blóma. Svo er eins og við bara hættum að stjórna hraðanum og látum þá draga okkur niður á sinn hægagang og það hentar okkur illa en þeim vel.

 

Ef við náum að stjórna hraðanum þá vinnum en við verðum að gera það í 40 mínútur en ekki 10 mínútur. Snæfellingar héldu skipulagi, voru agaðir og náðu að stjórna hraðanum, það er málið.

 

Nú snýst leiktíðin hjá okkur bara um þennan eina leik, það er næsti leikur sem er á laugardag. Það er eini leikurinn sem við horfum í núna, þurfum bara að ná sigri þar og endurskoðum svo stöðuna eftir þann leik.

 

Það er ekki himinn og haf á milli þessara liða en málið er það að við erum sjálfum okkur verstir. Það erum við sem erum ekki að spila okkar leik og látum Snæfell stjórna hraðanum, erum með óskiljanlegan misskilning í gangi í seinni hálfleik í vörninni og það er bara munurinn á þessu, þú mátt ekki við mörgum mistökum.

 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -