spot_img
HomeFréttirSagt eftir leik í DHL-Höllinni: Jón Arnór, Skarphéðinn og Friðrik

Sagt eftir leik í DHL-Höllinni: Jón Arnór, Skarphéðinn og Friðrik

20:00

{mosimage}
(Skarphéðinn að fagna sigri með liðsfélaga sínum Fannari Ólafssyni í leikslok)

Kapparnir Jón Arnór Stefánsson og Skarphéðinn Ingason voru kátir eftir sigurleik KR á Grindavík í undanúrslitum Subwaybikarsins. KR vann leikinn 82-70 og höfðu völdin allt frá upphafi til enda.

Jón Arnór Stefánsson KR:

,,Þetta var bara andlegur styrkleiki og vörnin og við héldum haus allan tímann en misstum þrjá leikmenn útaf í lokin en það komu flottir strákar inn af bekknum. Allir voru að skila sínu og Helgi kom t.d. inn með geðveikan leik og það var enginn feiminn við að fá villur í dag. Við nýttum villurnar vel í dag og það á að einkenna varnarlið en kannski ekki alveg fimm villur á þrjá leikmenn en við spiluðum hörkuvörn og héldum Grindavík í 70 stigum og hljótum að mega vera ánægðir með það,“ sagði Jón Arnór virkilega sáttur við sigurinn í leikslok.

Nú myndu margir segja að KR væri orðið bikarmeistari, getur þú tekið undir það?
Nei, alls ekki, eins og allir vita þá er þetta bikarkeppni og sama hvaða liði við mætum þar þá verður það lið brjálað í Höllinni og við mætum bara þangað massa stemmdir eins og í kvöld og við byrjum bara að hugsa um þann leik þegar að því kemur,“ sagði Jón en hvort liðið telur að hann að KR mæti í Höllinni, Njarðvík eða Stjörnunni?

,,Ég veit það ekki en trúi því að þetta verði hörkuleikur hjá þeim á morgun og sigurinn þar gæti dottið hvoru megin,“ sagði Jón sem dásamaði KR fyrir gott starf við umgjörð leiksins enda full ástæða til.

{mosimage}
(Jón Arnór Stefánsson)


Skarphéðinn Ingason KR:

,,Vá, maður er búinn að vera með alveg í maganum síðan í morgun,“ sagði Skarphéðinn við fréttaritara Karfan.is eftir leik. ,,Nú líður manni eins og það sé bara einhver víma að fara um mann,“ sagði Skarphéðinn kátur í bragði sem sagði að KR-liðið hefði ákveðið að koma grimmt til leiks í dag.

,,Menn ákváðu að koma agressívir inn í þennan leik og ekki leyfa Grindavík að komast inn í sinn leik, ekki leyfa Páli Axeli að hitta og ekki leyfa þeim að keyra á körfuna. Við tókum góða æfingu í gær til að pumpa menn upp fyrir leikinn og það tókst fullkomnlega,“ sagði Skarphéðinn.

Eruð þið þegar orðnir bikarmeistarar?
,,Nei, er þetta ekki það klassíska að allt getur gerst í bikarnum. Ég veit ekki einu sinni hverja við spilum við og mér gæti ekki verið meira sama en það verður bara slagsmál eins og þessi leikur,“ sagði Skarphéðinn og var alls ekki viss hvort hann myndi sjá Njarðvík eða Stjörnuna í Laugardalshöll þann 15. febrúar næstkomandi.

,,Bæði lið eru búin að vera svo mikið upp og niður þannig að ég bara veit það ekki, hef bara ekki hugmynd um það,“ sagði Skarphéðinn sem gerði þrjú stig í leiknum er hann hitti úr eina þriggja stiga skotinu sem hann tók.

Friðrik Ragnarsson Grindavík:

,,Við byrjum leikinn mjög illa og KR voru miklu ákveðnari en við og náðu snemma verðskuldaðri forystu og við einhvern veginn bitum aldrei almennilega frá okkur í þessum leik,“ sagði Friðrik Ragnarsson fremur daufur í dálkinn eftir ósigur Grindavíkur í DHL-Höllinni.

,,Eini sem beit virkilega frá sér í dag var Nick Bradford en aðrir voru bara langt frá sínu besta,“ sagði Friðrik en voru Grindvíkingar ekki tilbúnir í svona stórleik frammi fyrir troðfullu húsi?

,,Ef eitthvað er í þessu þá er það að spennustigið hafi verið of hátt því boltinn virtist einfaldlega of heitur í höndum minna manna sem virtust varla geta haldið á honum. Það er ekki hægt að saka menn um að vera ekki tilbúnir í leikinn, það er ekki til staðar en það vantaði miklu meiri áræðni og töffaraskap í þetta,“ sagði Friðrik sem var ekki ósáttur við vörn Grindavíkur sem hélt KR í 82 stigum í leiknum en honum fannst sóknarleikur sinna manna lélegur.

,,Okkur vantaði bara að spila sókn í þessum leik og við horfðum varla á körfuna,“ sagði Friðrik en nú á Grindavík einvörðungu einn titil eftir í sjónmáli og er það sjálfur Íslandsmeistaratitillinn.

,,KR er í ágætri stöðu og eðlilega eru þeir sigurstranglegastir í bikarnum en það er á kristaltæru að við þurfum að spýta í lófana, æfa meira og verða betri lið því KR er klárlega betra lið en við í dag og skrefinu á undan okkur,“ sagði Friðrik.

[email protected]

{mosimage}
(Friðrik Ragnarsson að ræða við Sigmund Herbertsson dómara í hálfleik í leiknum í dag)

Fréttir
- Auglýsing -