spot_img
HomeFréttirSagt eftir leik í DHL-höllinni

Sagt eftir leik í DHL-höllinni

08:00

{mosimage}

ÍR vann stórsigur á KR í gærkvöldi í átta liða úrslitum Iceland Express-deildar karla og tryggðu sér sæti í undanúrslitum. Karfan.is var á svæðinu og tók púlsinn á leikmönnum og þjálfurum eftir leik.


Jón Arnar Ingvarsson

Jón Arnar Ingvarsson, þjálfari ÍR, tók undir orð fréttaritara Körfunnar að þetta væri líklega besti leikur ÍR undir hans stjórn. ,,Ég held að það sé erfitt að mótmæla því, vera í þessari stöðu sem við erum í, oddaleik á heimavelli Íslandsmeistarana og rassskella þá svona eins og við gerðum í dag. Það er eitthvað sem er erfitt að toppa.”

ÍR-ingar mættu gríðarlega ákveðnir til leiks og náðu upp öruggri forystu strax í upphafi og Jón sagði það hafa verið mikið andlega hliðin. ,,Við erum búnir að fara mikið yfir andlegu hliðina á þessu og hvað við ætluðum að gera. Við vitum hvað við ætlum að gera og við vorum vissir um að við gætum þetta. Við vorum búnir að stimpla það vel inn og menn komu svo sannarlega staðráðnir frá fyrstu mínútu.”

Eftir að hafa slegið út Íslandsmeistara KR tekur við nokkuð verðugt verkefni fyrir ÍR en í næstu umferð mæta þeir deildarmeisturum Keflavíkur. Jón leyst bara mjög vel á þá viðureign. ,,Við erum að spila vel núna og klárir í að halda áfram í þessari úrslitakeppni.”

Benedikt Guðmundsson
Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR, var allt annað en sáttur með sína menn í kvöld.  Hann dró því ekki úr því að þeirra leikur hafi ekki gengið upp. ,,Alls ekki, það hefði ekki getað verið fjærri því. Það var himin og haf á milli þessara tveggja liða í dag og þeir áttu þetta innilega skilið. Þeir stóðu við stóru orðin og átti innistæðu fyrir því sem þeir voru að segja.”

Benedikt var ekki á því að eitthvað eitt hefði farið úrskeiðis í leiknum, þvert á móti hefði margt farið úrskeiðis en það var kannski sóknarleikurinn fyrst og fremst sem klikkaði. Aðspurður um hvað það væri sem orsakaði þennan mikla mun strax í upphafi sagðist Benedikt kannast við þessa stöðu. ,,Það gerðist það nákvæmlega sama og í leik eitt. Annað hvort mætum við of góðir með okkur eða of stressaðir, sem þýðir að mér, sem þjálfari, hefur algjörlega mistekist að stilla spennustigið eða “mótivera” liðið fyrir þennan leik. Mér fannst við mæta dýrvitlausir í Seljaskóla þegar það var búið að stilla okkur alveg upp við vegg en í þessum tveimur heimaleikjum finnst mér við bara koma flatir.”

Það er merkilegt að hugsa til þess að KR tapa tveimur heimaleikjum í röð á móti ÍR og með stuðningsmenn eins og voru í DHL höllinni í kvöld ætti það ekki að gerast. Þessu var Benedikt alveg sammála. ,,Mér finnst þetta náttúrulega alveg einstaklega leiðinlegt gagnvart þessum hörðustu stuðningsmönnum sem eru að hvetja hérna allan tímann og eru að reyna að hjálpa liðinu til þess að ná árangri, að hafa ekki boðið upp á betri leik og betri seríu en þetta. Maður er svona fyrst og fremst miður sín útaf því.”

Undir lok leiksins voru leikmenn KR farnir að sýna klærnar og vildu sumir meina að þeir hefðu gengið of langt og verið hreinlega grófir. Þessu var Benedikt ekki sammála. ,,Ég hefði viljað að menn hefðu farið að berja frá sér aðeins fyrr, þó það hefði kannski aðeins mátt fínpússa það en þetta var með einhverjum smá pirringi en við hefðum átt að vera svona fastir fyrir frá byrjun.”

Helgi Magnússon
Helgi Magnússon átti ekki sína bestu leiki á móti ÍR og var leikurinn í kvöld engin undantekning. Hann virtist hreinlega ekki vera viss hvað hefði gerst í leiknum. ,,Maður veit ekki hvað fór úrskeiðis, þeir bara vildu þetta meira en við,” sagði Helgi  og vildi ekki meina að þetta hefði verið einbeitingarleysi. ,,Það var góð stemming og allir tilbúnir en svo bara komum við út flatir og náðum okkur einhvernvegin aldrei eftir það. Við vorum búnir að jafna leikinn þarna á tímabili en eins og ég segji, ÍR-ingar spiluðu bara miklu betur í dag og eiga þetta bara fyllilega skilið.” Helgi vildi koma til skila hamingjuóskum til ÍR-inga fyrir sigurinn.

Sveinbjörn Claessen
Sveinbjörn Cleassen hefur verið að spila fanta vel í vetur og leikurinn í kvöld var enginn undantekning. Hann vildi þó þakka Fannari Ólafssyni fyrir góðan leik ÍR í kvöld. ,,Það er meðal annars honum að þakka að við mættum tilbúnir í þennan leik, það segir enginn í fjölmiðlum að einhver ætli að rassskella okkur svo það sé alveg á hreinu. Maður hélt að reynslumikill maður eins og hann myndi passa sig á svona hlutum og það er ofboðslega ljúft að henda þessu liði út úr úrslitakeppninni.”


Sveinbjörn ætlaði þó ekki að setja punkt eftir þennan leik því næsti leikur er á sunnudaginn og þá mæta þeir deildarmeisturum Keflavíkur. ,,Við ætlum ekki bara að slá KR út, núna er það bara næsta umferð og þetta er rétt að byrja. Við tökum eina umferð í einu og maður væri ekki í þessu ef maður ætlaði ekki alla leið.”

Sveinbjörn var bjartsýnn þó mjög bjartsýnn á framhaldið. ,,Það er búinn að vera rosalegur stígandi í þessu hjá okkur og við erum að toppa á réttum tíma. Við erum með valinn mann í hverri stöðu og nóg af mönnum, núna er það bara Keflavík næst.”

Nate Brown
Nate Brown hefur verið gríðarlega mikilvægur fyrir ÍR-inga í vetur og hann hefur svo sannarlega slegið í gegn í úrslitakeppninni gegn KR. Nate vildi ekki meina að þeir hefðu gert margt öðruvísi heldur en í seinasta leik. ,,Mér fannst við ekki spila mikið öðruvísi en í seinasta leik, við spiluðum kerfin okkar og vorum ákveðnir í okkar aðgerðum. Seinasti leikur tapaðist í raun bara á einni sókn en í þessum leik vorum við andlega sterkir og lögðu áherslu á þeirra mistök. Betra liðið vann í dag.”

Nate þakkaði góðri nýtingu í leiknum góðri einbeitingu leikmanna liðsins. ,,Skyttur skjóta, stundum hitta þær, stundum ekki, ég held að þetta sé spurning um góða hvíld og vera andlega einbeittur.” Hógværð er greinilega eitthvað sem Nate hefur alið með sér því þrátt fyrir stórleik vildi hann ekki gefa út neinar yfirlýsingar. ,,Við ætlum að berjast allt til enda, ég ætla ekki að segja að við förum alla leið og ég ætla ekki að segja að við töpum en okkur er engin takmörk sett.”

Gísli Ólafsson

Mynd: Snorri Örn Arnaldsson

Fréttir
- Auglýsing -