spot_img
HomeFréttirSagt eftir leik í Ásgarði: Fannar Helga og Sævaldur

Sagt eftir leik í Ásgarði: Fannar Helga og Sævaldur

 
Stjörnumenn biðu spenntir inní klefa eftir úrslitum úr Hólminum þær mínútur sem á milli liðu. Þegar undirritaðan bar að garði voru Stjörnumenn að fá fregnirnar og mátti heyrast fagnaðaróp úr klefanum. Það var því ljóst að með sigrinum í kvöld og þeirri staðreynd að Snæfell tapaði gegn KR hafði Stjarnan tryggt sér heimavallaréttinn. Það voru því ekki beint úrslitin úr leiknum í Ásgarði sem skiptu mestu máli fyrir Stjörnumenn í kvöld.
,,Nei, aldeilis ekki. Við þökkum KR-ingum pent fyrir bara. Það er bara frábært að taka fjórða sætið. Það er stórt skref fyrir okkur”.
Þar með er ljóst að Stjarnan fær Njarðvík í úrslitunum. Njarðvík er lið sem þjálfari Stjörnunnar ætti að þekkja og Stjarnan stendur á par við í ár með sigur á heimavelli en tap á útivelli. Fannari Helgasyni leist hins vegar ágætlega á verðandi mótherja. “ Mér lýst bara rosalega vel á þetta. Við töpuðum fyrir þeim í seinasta leik þar sem við mættum bara ekki tilbúnir. Það eru fullt af strákum þarna sem þekkja að spila leiki í úrslitakeppninni og þjálfarinn unnið ansi marga titla þannig að við verðum að mæta heldur betur tilbúnir í slagsmál og læti eins og var í síðasta leik hjá okkur”. Heimavallarétturinn á þá líklega eftir að vega þungt í því einvígi. “ Það er alveg krúsíal, alveg krúsíal í svona rimmu þegar jafnt er”.
 
Sævaldur Bjarnason hefur lokið sínum samningi fyrir Breiðablik og endaði það á stóru tapi fyrir Stjörnumönnum. Sævaldur vildi hins vegar ekki viðurkenna að Stjarnan væri þeim ofjarlar.
,,Nei alls ekki, þeir eru með gott lið. Stóra og sterka stráka. Við náttúrulega féllum í seinustu umferð og höfðu því ekki að miklu að keppa nema stoltinu. Ég náttúrulega rúlla á öllum 11 í fyrri hálfleik og við vorum bara að reyna að hafa gaman af þessu. Úrslitin kannski ekki aðalatriðið fyrir okkur í þessari stöðu”. Stjarnan spilaði nokkuð öflugan sóknarleik og nýttu sér hvert tækifæri sem fékst fyrir utan þriggja stiga línuna. Það skilaði þeim heilum 18 þriggja stiga körfum í leiknum og það í aðeins 31 tilraun sem gerir 58% nýtingu. “ Við þurftum að fara í svæði og við höfum ekkert verið að æfa það neitt brjálæðislega mikið þannig að þeir fengu opin skot í horninu. Það er annað hvort það eða gefa þeim lay-upin. Þetta er bara áhætta”. Núna hefur Sævaldur lokið sínum samningi við Breiðablik en ekki er ennþá ljóst hvort hann fái að halda áfram með liðið í 1. deildinni að ári. ,,Ég var ráðinn í þessar 7 vikur og svo ætluðum við að taka stöðuna eftir það. Það er mjög spennandi að vera með Blikana í 1. deild, það er enginn vafi á því. Fullt af ungum strákum sem fengu að spila í dag. Það er ekki mitt að ákveða það”.
 
Gísli Ólafsson
Fréttir
- Auglýsing -