spot_img
HomeFréttirSagt eftir leik á Stöð 2 Sport

Sagt eftir leik á Stöð 2 Sport

23:09

{mosimage}
(Úr fyrri leik liðanna í Hólminum)

Leikur Snæfells og Grindavíkur var stórkostlegur í kvöld þegar Snæfells vann og komst í úrslit. Þorsteinn Gunnarsson íþróttafréttamaður var ekki búinn að ná sér niður þegar hann ræddi við þjálfara og leikmenn strax að leik loknum.

Friðrik Ragnarsson – þjálfari Grindavíkur:
,,Ég hef lent í þessu áður,” sagði Friðrik um hið mikla forskot sem tapaðist. ,,Við töpuðum bara fyrir okkar eigin klaufaskap og þess vegna erum við dottnir út úr þessari seríu. Við gáfum þeim tvo leiki og við verðum bara að bíta í það súra,” sagði Friðrik og bætti við þegar Þorsteinn spurði hann hvað hafði gerst en Grindavík glundraði 18 stiga forskoti. ,,Við hættum að spila vörn og vorum alltof passífir í sókninni. Við vorum frábærir í 30 mínútur í þessum leik og einhvern veginn féll þetta ekki okkar megin.” Aðspurður um lokaskotið sagði Friðrik að hann hafi sett upp þriggja-stiga skot fyrir Pál Axel Vilbergsson en Þorleifur Ólafsson tók síðasta skotið í leiknum.

Hlynur Bæringsson – fyrirliði Snæfells:
Um leikinn sagði Hlynur að Grindvíkingar hafi verið að hitta rosalega vel en þeir hafi ekki viljað fara aftur til Grindavíkur og því þurfti að klára leikinn. Aðspurður hvort það væri ekki kominn tími á Snæfell að landa titlinum sagði hann. ,,Allt er þegar þrennt er – auðvitað er kominn tími á það.” En Snæfell hefur tvisvar áður farið í úrslit og tapað í bæði skiptin. Um framhaldið sagði hann. ,,Við fáum annað hvort Keflavík eða ÍR og það verður mjög erfitt. Þetta verður rokk og ról.”

Liðsfélagi hans Sigurður Þorvaldsson fór á kostum og Hlynur sagði hann vera alvöru mann. ,,Hann getur ekki neitt,” sagði Hlynur í gamansömum tón þegar Þorsteinn spurði hann um frammistöðu félaga síns. ,,Hann steig upp þegar við þurftum á honum að halda. Þetta er alvöru maður.”

Geoff Kotila – þjálfari Snæfells:
,,Þetta var ekki varnarleikur eins og ég vonaðist til,” sagði Geoff en bætti við að þetta hafi verið frábær leikur. Geoff var spurður hvað hafði breyst þegar leikmenn hans fóru að saxa muninn. ,,Kannski fórum við að hætta að hugsa og byrjuðum að spila. Þetta átti ekki að þróast svona en við tökum þetta,” sagði Geoff og bætti við að það væri stórkostlegt afrek að komast í alla úrslitaleiki ársins. Snæfell eru Powerade- og Lýsingarbikarmeistarar og eru nú komnir í úrslitin um Íslandsmeistaratitilinn.

Sigurður Þorvaldsson – leikmaður Snæfells:
Sigurður Þorvaldsson fór á kostumí kvöld og skoraði 39 stig. Hann sagði sína menn ætla að fagna sigrinum með því að fá sér hamborgara og svo fara undirbúa sig fyrir næstu seríu. ,,Þetta var comeback ársins og ekkert annað,” sagði Sigurður. ,,Við vorum komnir 18 stigum undir í 4. leikhluta og það var ekkert annað að gera en að skjóta,” sagði skyttan mikla sem setti fimm af sex þriggja-stiga skotum sínum ofaní. ,,Það fór allt ofaní og þá hélt ég áfram. Við réðum alls ekki við hraðann hjá þeim og þeir voru að keyra vel í bakið á okkur en við komum upp á réttum tíma.”

[email protected]

Mynd: [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -