Henning Henningsson þjálfari Hauka var sáttur með sitt lið í leikslok. Hann sagði að Grindavíkurliðið væri virkilega öflugt og vissi að ef þær nýttu skotin sín fyrir utan yrðu þær ill við ráðanlegar.
„Ég hafði trú á því en var ekki 100% viss” sagði Henning þegar hann var spurður hvort að hann hafi búist við því að Haukar myndu taka þetta 2-0.
„Þetta er náttúrlega gríðalega öflugt Grindavíkurlið og þær byggja mikið á sínum skotum fyrir utan og ef þær eru að hitta úr þeim skotum þá eru þær ill við ráðanlegar. Þær voru að hitta ágætlega í báðum leikjunum en við héldum haus í báðum leikjum í lokin og það er það sem gerði gæfu muninn”
Heather Ezell var í strangri gæslu allan leikinn og losaði það um Kiki Lund sem átti stórleik og skoraði 30 stig þar af 24 úr þriggja stiga skotum.
„Já Kiki átti frábæran leik en ég segi að Grindavík náði ekkert að stoppa Heather því hún bjó allt til fyrir Kiki. Heather er bara þannig leikmaður að ef hún er ekki að skora þá finnur hún bara aðra leikmenn og í þessu tilviki nýtti Kiki sér það mjög vel” sagði Henning en Heather var þrátt fyrir gæsluna með 11 stoðsendingar og 19 stig.
En hvernig lýst Henning á KR liðið sem Haukar munu mæta í undanúrslitum?
„Við erum að fara að spila gegn því liði sem á að vera besta liðið á Íslandi þannig að við komum svolítið sem svona öskubuskulið inn í þetta og erum að koma bakdyrameginn inn í úrslitakeppnina má segja. Okkur var ekki spáð úrslitakeppnissæti í upphafi móts og við erum svo sem búin að afsanna það að menn áttu ekki að afskrifa okkur svona snemma. Það verður bara gaman að fá að spila á móti KR og þetta verður vonandi hörku viðureign og erum bara fyrst og fremst ánægð að fara ekki í sumarfrí strax. Það er nógu stutt þetta mót” sagði Henning sáttur við að vera enn í körfuboltatengdri vinnu þetta tímabilið.
Jóhann Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.
„Nei þetta gekk ekki upp” sagði svekktur Jóhann Ólafsson þjálfari Grindavíkur þegar karfan.is náði í skottið á honum eftir leik.
„Við erum að tapa hérna í tveim hörkuleikjum þar sem tvö góð lið eru á ferðinni og við vorum því miður ekki réttu meginn við línuna í þeim báðum.”
Allt leit út fyrir að Grindavík myndi hreppa annað sætið í deildinni í vetur en slæmur loka kafli þeirra í deildinn gerði það að verkum að liðið datt niður í fjórða sætið og mætti þar af leiðandi Haukum í umspili. Jóhann segir að það sé engum að kenna og er ekki fyllilega sáttur með mótafyrirkomulagið á IE-deild kvenna.
„Við lentum í smá lægð og ég held að þetta sé fimmti tapleikurinn í röð. Það er í sjálfu sér engum hægt að kenna um en það er hægt að nefna fáranlegt fyrirkomulag á deildinni þar sem þessu er skipt upp í A og B. Haukaliðið spilaði frekar létta leiki á meðan við erum í hörkuleikjum en það er svo sem ekki hægt að kenna því um við héldum þetta einfaldlega ekki út.”
Stóra spurningin er svo hvort að Jóhann haldi áfram með Grindavíkurliðið en hann er á sínu fyrsta ári með það og hefur náð nokkuð góðum árangri af nýliða í þjálfarastólnum að vera.
„Ég veit það ekki. Ég þarf að skoða mín mál og það eru alveg góðar líkur á því en það verður bara skoðað í rólegheitum.”
Telma Fjalarsdóttir, fyrirliði Hauka
Það var annað hljóð í fyrirliða Hauka, Telmu Fjalarsdóttur. Hún var að vonum ánægð og sagði að þetta hafi verið það sem Haukaliðið lagði upp með að sópa Grindavík úr umspilinu.
„Við erum búnar að fá smá tíma til að slípa liðið saman og notuðum tíman í B-riðlinum vel. Við áttum aldrei að vera í B-riðli en svona fór þetta og við reyndum að nýta okkur það til góðs og það gekk upp held ég” sagði Telma um þær breytingar sem hafa orðið á Haukaliðinu upp á síðkastið en þær hafa nú sýnt bæði gegn Keflavík í bikarnum og nú gegn Grindavík að þær eru sýnd veiði en ekki gefin.
En hvernig fer svo einvígi Hauka og KR í úndanúrslitum?
„Eins og í fyrra. Oddaleikur með okkar sigri” og fleiri urðu orðin um það einvígi ekki frá Telmu Fjalarsdóttur fyrirliða Hauka.
Mynd: Henning í viðræðum við dómara leiksins – Tomasz Kolodziejski



