spot_img
HomeFréttirSafnað fyrir Garðinum hans Gústa - Margt smátt gerir eitt stórt

Safnað fyrir Garðinum hans Gústa – Margt smátt gerir eitt stórt

Um þessar mundir rís við Glerárskóla á Akureyri Garðurinn hans Gústa – glæsilegasti útikörfuboltavöllur landsins. Ágúst Herbert Guðmundsson er körfuknattleiksunnendum góðkunnugur sem sannkallaður körfuboltafrömuður jafnframt því að vera sigursælasti þjálfari Þórs frá upphafi. Ágúst lést langt fyrir aldur fram fyrr á þessu ári eftir hetjulega baráttu við MND.

Hérna er Garðurinn hans Gústa á Facebook

Tilkynning:

Vinir Ágústar hafa síðustu mánuði unnið að því með ráðum og dáð að reisa Garðinn hans Gústa til minningar um góðan dreng. Þar sem Gústi var harður Boston Celtics aðdáandi fékk völlurinn heitið Garðurinn hans Gústa (en heimavöllur Celtics var Boston Garden og er nú TD Garden).

Útikörfuboltavöllur af þessari gerð kostar sitt og stendur söfnun fyrir vellinum yfir. Margir hafa lagt hendur á plóg og fjölmargir einstaklingar hafa látið af hendi rakna auk félagasamtaka og fyrirtækja. Jafnframt hafa verktakar greitt götu verkefnisins. Samkvæmt nýjustu tölum hafa safnast u.þ.b. 4,2 milljónir og senda aðstandendur verkefnisins öllum sem gefið hafa til verkefnisins kærar þakkir fyrir sitt framlag. Markmiðið er að safna 10 milljónum, en Akureyrarbær greiðir helming kostnaðarins.

Vinir Ágústar skora á alla körfuknattleiksunnendur og aðra velunnara að styrkja þetta verðuga samfélagsverkefni og miklu lyftistöng fyrir akureyskan körfuknattleik. Margt smátt (og stórt) gerir eitt STÓRT. Reikningsnúmer Garðsins hans Gústa er 0302-26-000562 og kennitala er 420321-0900.

Leggjumst öll á eitt og styrkjum Garðinn hans Gústa! Með fyrirfram þökkum.

Fréttir
- Auglýsing -