spot_img
HomeFréttirSævar Ingi: Þeir fengu að hlaupa alltof mikið

Sævar Ingi: Þeir fengu að hlaupa alltof mikið

„Það voru bara smá atriði sem voru að klikka,“ sagði Sævar Ingi Haraldsson leikmaður Hauka eftir að hafa verið slegnir út af Íslandsmeisturum Snæfells í kvöld.
Sævar segir að sendingarfeilar og léleg skotnýting sem og að örlítið hafi vantað upp á baráttuna hjá Haukaliðinu til að klára dæmið. „Kannski vantaði eitthvað upp á baráttuna en ég held samt ekki. Menn voru með hausinn í þetta en eins og ég segi þá voru það litlu atriðin sem voru að klikka.“
 
Haukar náðu með flottum leik að vera alveg jafnfætis Snæfellingum í fyrri hálfleik og Snæfellingar virkuðu hálf taugviklaðir. Snæfellingar snéru dæminu sér í hag í seinni hálfleik og um leið virkuðu Haukarnir hræddir. Sævar vildi ekki meina að þetta hafi verið hræðsla í Haukaliðinu heldur væri alltaf erfitt að elta Snæfellinga þegar þeir ná upp smá mun.
 
„Ég vil ekki meina að þetta sé hræðsla heldur er alltaf erfitt að vera að elta þá þegar þeir ná fimm til tíu stiga mun og þeir fá að spila sinn leik eins og þeir voru að gera í seinni hálfleik. Þeir fengu að hlaupa alltof mikið og við náðum ekki að stjórna tempóinu. Einhver hræðsla ég veit það ekki, nei ég held ekki það er bara eins og ég segi, það er erfitt að elta þá þegar þeir ná svona rönni.“
 
Vítanýting Hauka var alveg skelfileg líkt og í fyrsta leiknum í rimmunni og við spurðum Sævar einfaldlega hvort að körfurnar í Stykkishólmi væru svona erfiðar.
 
„Það er eitthvað. Ég veit ekki hvort að það sé fókus eða hvað en við töluðum um að vera slakir í öllum þessum atriðum í vítanýtingu og sniðskotum. Það var kannski ekki klikkað úr mikið af layupum en við klikkuðum úr alltof mikið af vítum það er alveg rétt.“
 
Árangur Hauka er búinn að vera frábær á þessu tímabili en liðinu var spáð falli í fyrstu deild fyrir tímabilið. Sævar er sammála því að árangur liðsins sé fínn þó svo að hann líti ekki á það sem slíkt akkúrat núna.
 
„Við getum örugglega verið sáttir heilt yfir á morgun eða hinn en ég get ekki verið sáttur í dag.“

Ljósmynd/ Þorsteinn Eyþórsson

[email protected]

 
Fréttir
- Auglýsing -