spot_img
HomeFréttirSævaldur og Guðni taka við Blikum

Sævaldur og Guðni taka við Blikum

 
Leit Breiðabliks að þjálfara fyrir meistaraflokk karla tók enda í dag þegar gengið var frá ráðningu Sævalds Bjarnasonar sem þjálfara, en honum til aðstoðar verður reynsluboltinn Guðni Hafsteinsson. Karfan.is náði í skottið á Sævaldi þegar hann var á leið á æfingu nú í kvöld.
Hvernig kom það til að þú tókst við meistaraflokki Breiðabliks?
Stjórnin var í sambandi við mig og spurði hvort ég hefði áhuga á því að hjálpa félaginu í þeirri stöðu sem við erum í og taka að mér liðið út tímabilið. Ég hlakka bara til að takast á við þessa áskorun sem bíður okkar næstu 8 vikurnar.
 
Það er ljóst að staða liðsins er erfið, hvernig líst þér á verkefnið?
Liðið er í 11. sæti deildarinnar það er staðreynd málsins, við þurfum klárlega að breyta þeim gangi til þess að falla ekki. Staðan er hinsvegar á engan hátt óyfirstíganleg og við höfum trú á því að geta snúið þessu við og komist á sigurbraut. En fyrst og fremst ætlum við að fara að berjast og hafa gaman af því að spila körfubolta.
 
Verða gerðar einhverjar breytingar á liðinu?
Það verða enga breytingar á leikmannamálum okkar, það verður hinsvegar breyting í hugum leikmanna minna og við ætlum að gefa okkur alla í þessa 8 leiki sem eftir eru og sjá hvað það gefur okkur mörg stig í viðbót.
Fréttir
- Auglýsing -