,,Við náðum ekki að verjast nógu vel, það var heila málið og við fráköstuðum ekki vel og Fjölnismenn vildu þetta kannski bara meira en við, því miður,“ sagði Sævaldur Bjarnason þjálfari Blika en Kópavogspiltar féllu í kvöld í 1. deild eftir 81-93 ósigur gegn Fjölni í Iceland Express deild karla.
,,Í hvert skipti í leiknum sem við vorum að koma til baka þá náði Fjölnir að svara og okkur tókst ekki að stoppa þá. Við réðum ekki við þá undir og svo settu þeir niður stór skot þegar þeir þurftu á því að halda,“ sagði Sævaldur en hann og Guðni Hafsteinsson tóku við þjálfun Breiðabliks af Hrafni Kristjánssyni og þá var þegar komið í óefni.
,,Við höfum unnið þrjá leiki og áttum séns í dag á því að koma okkur í 10. sæti deildarinnar. Það voru samt ekki margir sem höfðu trú á Breiðablik þegar við tókum við með 14 tapleiki og 2 sigra. Við kannski náðum að gera þetta spennandi fyrir okkur og við föllum í næstsíðustu umferð, þetta var erfitt verkefni og við bara náðum ekki að rétta þetta við, því miður,“ sagði Sævaldur en er hann sáttur við að Blikar hafi nælt sér í sex stig eftir að hann og Guðni tóku við?
,,Það er augljóslega ekki nógu góður árangur því við féllum. Svo er spurning hvernig maður lítur á þetta og það er ekki skömm að því að falla því það eru hrikalega margir strákar í félaginu sem fá nú vonandi tækifæri í 1. deild og það er fullt af jákvæðum hlutum að gerast, ekki spurning. Það eru tvö lið sem þurfa að falla og því miður erum við annað þeirra,“ sagði Sævaldur en er of snemmt að rýna eitthvað í framhaldið hjá honum núna?
,,Ég var bara ráðinn í sjö vikur og það verður bara að koma í ljós hvað verður og eins og ég segi þá eru margir efnilegir strákar hérna í félaginu,“ sagði Sævaldur sem ásamt Guðna stjórnar Blikum í sínum síðasta leik í Iceland Express deildinni í bili þegar Breiðablik heimsækir Stjörnuna í síðustu umferð deildarinnar næsta fimmtudag.



