spot_img
HomeFréttirSævaldur: Ætlum að berjast eins og ljón

Sævaldur: Ætlum að berjast eins og ljón

 
Breiðablik er í forvitnilegri stöðu um þessar mundir í Iceland Express deild karla en liðið getur fallið í 1. deild, tryggt sæti sitt í úrvalsdeild og ekki farið í úrslitakeppni eða leikið í úrslitakeppninni með því að ná sjöunda eða áttunda sæti deildarinnar. Blikar mæta KR í kvöld í DHL-Höllinni en KR trónir á toppnum með 30 stig á meðan Blikar hafa 8 stig í 11. sæti. Karfan.is ræddi stuttlega við Sævald Bjarnason þjálfara liðsins en hann og Guðni Hafsteinsson tóku við liðinu þegar Hrafn Kristjánsson sagði skilið við þjálfarastólinn.
,,Við eigum fjóra leiki eftir og þurfum að fara að ná í einhverja punkta ef við ætlum okkur að vera með í baráttunni og dagurinn í dag er ekkert verri en hver annar til að ná í stig. Það verður samt mjög erfitt þar sem KR er með þétt og hávaxið lið og sterka leikmenn í öllum stöðum,“ sagði Sævaldur í samtali við Karfan.is.
 
Sævaldur og Guðni eru með helmings sigurhlutfall síðan þeir tóku við Blikum en sigrar komu í fyrstu tveimur leikjum nýráðnu þjálfaranna gegn ÍR og svo Tindastól en Blikar hafa tapað síðustu tveimur leikjum gegn Grindavík og nú síðast gegn Njarðvík fengu þeir skell.
 
,,Við höfum spilað við Njarðvík og Grindavík undanfarið sem eru bæði massíf lið sem geta skipt inn leikmönnum og þau veikjast ekki og hið sama er í gangi hjá KR sem hafa verið að spila vel,“ sagði Sævaldur sem segir Blika þó vera að vinna sína vinnu.
 
,,Við erum að vinna í því að bæta okkar leik og við erum að gera um 80 stig á leik og erum því sóknarlega betri og byggjum bara ofan á það sem við höfum verið að gera og sjáum hverju það skilar okkur,“ sagði Sævaldur sem í kvöld mætir í DHL-Höllina án Daníels Guðmundssonar sem glímir við ökklameiðsli.
 
,,Í kvöld ætlum við að berjast eins og ljón og ætlum okkur að reyna að halda KR í skefjum þar sem við höfum fengið á okkur um og yfir 100 stig í síðustu leikum. Þá ætlum við einnig að hafa gaman af þessu,“ sagði Sævaldur en það hafa verið einkunnarorð hans síðan hann tók við Blikum.
,,Kannski var pressan smá að stríða mönnum í byrjun þar sem hún og væntingarnar voru miklar og menn kannski óánægðir með árangurinn en í kvöld berjumst við eins og ljón og gerum hlutina saman,“ sagði Sævaldur ákveðinn en það má ekki mikið út af bera í næstu leikjum hjá Blikum og þó svo þeir hafi allt að vinna þá er 1. deildin líka að toga í þá í augnablikinu.
Ljósmynd/Tomasz Kolodziejski: Blikar sáttir með sigur í Kennó.
 
Fréttir
- Auglýsing -