spot_img
HomeFréttirSæþór Elmar Íslandsmeistari í Stinger 2012

Sæþór Elmar Íslandsmeistari í Stinger 2012

Íslandsmótið í Stinger fór fram í Hertz Hellinum í Breiðholti í dag þar sem Sæþór Elmar Kristjánsson fagnaði sigri. Sæþór og formaður KKD ÍR, Viðar Friðriksson, voru tveir eftir í keppninni og þegar formaðurinn var farinn að blása móðan lét Sæþór sverfa til stáls og kláraði kallinn.
Um svipaða þátttöku og í fyrra var að ræða eða um 30 manns og í fyrsta sinn tóku konur þátt í keppninni og þeirra á meðal var Eva María Emilsdóttir leikmaður Fjölnis í Domino´s deild kvenna. Þá var önnur sem kom langt að en hún heitir Dagbjört Dögg Karlsdóttir og kemur frá Reykjaskóla í Hrútafirði en hún leikur með Kormáki í 8. flokki.
 
 
Sæþór Elmar tekur því við titlinum af Trausta Stefánssyni sem var ekki á landinu til að verja titilinn sinn en þetta var annað árið í röð sem mótið fer fram. Það var létt yfir fólki í Hertz Hellinum í dag og ljóst að margir bíða spenntir eftir því að körfuboltavertíðin rúlli af stað.
 
 
Mynd/ Sæþór Elmar var leystur út með Gatorade og svo verður hægt að hitta á kappann á Nings á næstunni en hann hlaut veglega úttekt frá veitingastaðnum. Því skal svo haldið til haga að Sveinbjörn Claessen tók það á sig að taka fyrsta skot keppninnar og dugði hann fyrstu þrjár umferðirnar áður en hann var skotinn úr leik.

 
  
Fréttir
- Auglýsing -