Aðdáendur körfuknattleiks og þá kannski sérstaklega aðdáendur finnska landsliðsins geta farið að láta sig hlakka til lokamóts EuroBasket þar sem að stjarna þeirra og Utah Jazz í NBA deildinni Lauri Markkanen mun leika með liðinu í haust. Staðfesti Lauri þetta við Mtv í heimalandinu.
Sagði Lauri það alltaf vera heiður að fá að klæðast finnsku treyjunni og að hann hlakkaði mikið til að taka þátt í lokamótinu, en lið hans mun leika á heimavelli í Tampere ásamt Litháen, Þýskalandi, Bretlandi, Svartfjallalandi og Svíþjóð. Þaðan munu efstu fjögur lið riðilsins komast áfram í 16 liða úrslit keppninnar.
Þrátt fyrir að vera aðeins 28 ára gamall mun lokamótið vera það fjórða sem hann fer á með liðinu, en áður fór hann með þeim á EuroBasket 2017, 2022 og á heimsmeistaramótið 2023.
Á EuroBasket hefur hann gert vel með liðinu. Árið 2017 fór hann með þeim í 16 liða úrslit og 2022 fór liðið í 8 liða úrslit. Segir Lauri liðið vilja fara enn lengra þetta árið og stefna á að komast á verðlaunapall.
Lauri hefur á síðustu árum verið einn allra besti leikmaður Norðurlanda og gerir hann tilkall til að vera sá besti frá upphafi, hafandi skilað 16 stigum og 7 fráköstum að meðaltali í leik á gífurlega farsælum átta ára feril í NBA deildinni.



