Topplið Snæfells lagði Val í Domino´s deild kvenna í gærkvöldi. RÚV var á staðnum og fylgdist með gangi mála og náðu því á myndband þegar Ragna Margrét Brynjarsdóttir leikmaður Vals gerðist sek um háskalega iðju þegar hún sveiflaði olnboga í Helgu Hjördísi Björgvinsdóttur leikmann Snæfells sem var til varnar.
Atvikið má sjá hér í Sarpi RÚV en íþróttafréttir hefjast á 9.00 mín. og hefst íþróttapakkinn á viðureign Vals og Snæfells. Ragna Margrét hlaut óíþróttamannslega villu fyrir þessa framgöngu sína en ljóst er að þarna hefði vel getað farið verr og þessir tilburðir á velli eiga ekki að sjást.
Fastlega má gera ráð fyrir að eftirmálar verði af þessu atviki en þrennt er í stöðunni, að Snæfell leggi fram kæru vegna málsins, að dómaranefnd KKÍ kæri atvikið eða að óíþróttamannslega villan verði látin standa og ekki meira að gert.



