Byrjum á að óska KR-ingum til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn… við fullyrðum að þetta sé besta lið allra tíma í úrvalsdeild á Íslandi frá upphafi… Liðið var svo þétt skipað af frábærum leikmönnum að velgengni liðsins hékk aldrei á framlagi frá einhverjum einum leikmanni… ef við tökum tvo leiki Shawn Atupem úr jöfnunni þá var enginn leikmaður með hærra meðaltal en 19 og alls 7 leikmenn með yfir 10 stig að meðaltali í leik í deildarkeppninni… Í úrslitakeppninni voru 5 leikmenn með yfir 10 en Brynjar Þór var ekki langt undan með 9… Þessu til samanburðar voru 5 leikmenn með yfir 10 stig að meðaltali í leik árið 2009 í deildarkeppninni og þeim fjölgaði í 6 í úrslitakeppninni… KR2009 innihélt mögulega sterkari einstaklinga en KR2014 var sterkara “lið” og með gríðarlega góðan ballans… förum betur í samanburð á þessum liðum einhvern tímann seinna… Nokkur orð um leikmennina…
Martin Hermannsson – eitt mesta efni sem Ísland hefur gefið af sér í körfuknattleik síðan Jón Arnór. Annað eins jafnvægi og agi í tvítugum leikmanni hefur ekki sést síðan fyrrnefndur Jón Arnór var á sama aldri. Fágæt blanda af hraða, tækni, snerpu og andlegu hugarástandi sem við höfum bara ekki séð í mjög langan tíma. Við fáum ekki að sjá hann spila með íslensku félagsliði framar. Hlökkum til að sjá hann með landsliðinu bara.
Pavel Ermolinskij – þrennukóngur deildarinnar með sjö þrefaldar tvennur í deildinni í vetur. Afrek sem aldrei hefur verið gert áður og verður langt þar til, ef einhvern tímann verður leikið eftir. Á tímabili var hann með þrefalda tvennu að meðaltali í leik! Ótrúlega sjaldgæf blanda af hæð, styrk og augsýn á völlinn. Stýrði leik KR-liðsins frábærlega á þessari leiktíð.
Helgi Magnússon – löðrandi í körfubolta-IQ. Þekkir leikinn inn og út á báðum endum vallarins. Sækir körfur ef þess þarf. Fljótur að finna veikleika og mismatch í leikmönnum og nýta þá. Banvænn niðri á blokkinni og getur sett þristinn þegar þess þarf eins og sást á móti Stjörnunni. Afburða varnarmaður sem getur dekkað bæði hávaxna miðherja jafnt sem snögga bakverði.
Darri Hilmarsson – einn af mikilvægustu leikmönnum liðsins. Gerir það sem þarf, hvað sem það kostar. Ósérhlífinn baráttuhundur sem getur slökkt á öllum skorurum deildarinnar ef þess þarf. Það þarf ekki að vera flassjí til að virka vel, lýsir honum kannski best.
Brynjar Þór – meðtók nýtt hlutverk sem bekkjarvermir af mikilli fagmennsku. Vafalítið sjötti maður deildarinnar. Kom inn með baráttu og setti mikilvæg skot og spilaði einnig frábæra vörn.
Finnur Freyr – þjálfari ársins, hands down. Á sínu fyrsta ári sem aðalþjálfari meistaraflokks karla og landar titlinum. Jafnvægi liðsins skrifast á hann og að halda því út allt tímabilið. KR liðið var gríðarlega vel skipulagt, bæði í vörn og sókn og styðja allir tölfræðivísar undir þá fullyrðingu.
Önnur vísbending um styrk liðsins er að það var ekki eins háð framlagi erlends leikmanns í sókn eins og flest önnur lið deildarinnar. Vörn og fráköst voru þeir póstar sem þurfti að manna í þeirri deild hjá KR. Damond Watt uppfyllti þær kröfur fullkomlega og þau stig sem hann skoraði komu mikið til vegna allrar þeirra athygli sem hinir leikmenn liðsins fengu, og gleymdist hann oft í teignum.
Bless bless Dominosdeild… halló NBA úrslitakeppni.
We OUT like körfubolti á Íslandi… í bili.



