,,Þetta er erfið spurning og við skiljum ekkert í þessu sjálfir og hvað þá þjálfarinn okkar, hann skilur ekki hvað við erum að gera. Við mætum hér í dag og byrjum ágætlega en um leið og það fór að síga á okkur voru allt of margir sem settu bara hausinn í bringuna,” svaraði Rúnar Ingi Erlingsson aðspurður hvaða ástæða lægi að baki þessu sveiflukennda Njarðvíkurliði. Njarðvík steinlá í Vesturbænum í kvöld gegn KR 92-69 í sjöttu umferð Iceland Express deildar karla.
,,Við vorum ekki með í öðrum leikhluta en komum svo sterkir í byrjun þriðja en þá gerist það sama, fer að síga á okkur og við forum bara í einhverja fýlu,” sagði Rúnar en telur hann að þessi dræma byrjun Njarðvíkinga á tímabilinu gæti bitið þá í rassinn síðar meir?
,,Ég vil ekki hugsa þannig, við erum í þessu til að vinna og þetta snýst um að vera bestur í apríl. Við mætum að sjálfsögðu í alla leiki til að vinna þá og mér finnst við vera með mjög hæfileikaríkt lið og ég veit hvað við getum og við höfum sýnt það í nokkrum leikjum. Við þurfum bara að taka okkur saman í andlitinu og fara að spila alla leiki eins og þeir séu sá síðasti í mótinu,” sagði Rúnar sem fær Fjölnismenn í heimsókn í Ljónagryfjuna í næstu umferð, eftir svona tapleik í kvöld hvernig leggst þá næsti leikur í hann?
,,Sá leikur leggst mjög vel í mig, það er lítið sem við getum notað úr þessum leik og það er stutt í Fjölnisleikinn svo við þurfum að byrja á því að einbeita okkur að honum núna! Fjölnir er með skemmtilegt lið en við eigum að taka þá í teignum, klárlega. Ég veit að þó þessir ungu strákar Fjölnis séu góðir þá eru þeir ekkert að fara að labba eitthvað með okkur.”



