spot_img
HomeFréttirRosalegur úrslitaleikur hjá Breiðablik og Fjölni

Rosalegur úrslitaleikur hjá Breiðablik og Fjölni

Í gærkvöld fór fram þriðji og seinasti leikur í úrslitarimmu Breiðabliks og Fjölnis í 1. deild kvenna. Heimamenn tryggðu sér sæti í úrvalsdeild kvenna á næsta ári með sigri eftir æsispennandi leik sem lauk 75-63.
 
 
Leikurinn byrjaði frá fyrstu mínútu þar sem bæði lið virtust þyrst í sigur og sýndu það með baráttu og góðu spili. Blikastelpurnar tóku 10-2 rispu í miðjum leikhlutanum en þá svöruðu Grafarvogsstúlkurnar um hæl með þeirra eigin rispu þar á eftir (2-7). Blikar hittu 10/21 í leikhlutanum á móti 8/16 hjá Fjölni en hinar gulklæddu sóttu fleiri vítaskot (4/5 á móti 1/2) sem gerði að verkum að leikhlutanum lauk ekki verr en 23-21, heimastúlkum í vil. Það má til gamans geta að Mone Peoples, erlendur leikmaður Fjölnis, tók langt þriggja stiga skot rétt innan við miðju einmitt þegar flautan gall í lok leikhlutans og setti skotið, spjaldið ofan í!
 
Annar leikhlutinn var nokkuð ólíkur þeim fyrsta en Fjölnir var ekki að hitta sérlega vel úr skotum sínum. Liðin höfðu bæði verið með ca. 50% skotnýtingu á fyrstu tíu mínútunum en á meðan að Blikar hittu úr 6 af 15 (40%) skotum sínum settu Fjölnisstúlkur einungis 3 af 19 (16%) skotum sínum. Þrátt fyrir þetta var einungis 6 stiga munur þegar liðin héldu inn í búningsklefa í hálfleik: 36-30 fyrir Breiðablik. Blikar höfðu ekki fengið vítaskot í þessum leikhluta á meðan að Fjölnir náði að sækja 4 víti og nýttu 2 þeirra.
 
Fjölnir átti slæman annan leikhluta og í þriðja leikhluta til að gæta jafnræðis áttu Blikastelpurnar afleitan leikhluta þar sem þær settu ekki eitt skot utanf af velli (0/10). Til allrar hamingju sóttu þær 8 vítaskot og nýttu 7 þeirra (87% nýting) þannig að þær voru enn í leiknum. Fjölnisstúlkur hittu ekkert sérstaklega vel í leikhlutanum en sökum baráttu þeirra og almennrar ólukku heimamanna rifu Grafarvogspíurnar niður 16 fráköst í leikhlutanum (þ.a. 9 sóknarfráköst) þannig að þrátt fyrir slæma nýtingu (4/14 í skotum, 29%) þá sigu þær fram úr Blikum í lok leikhlutans, 43-46. Það mátti minnstu muna að þjálfari Blika, Andri Þór, gekk næstum því of fljótt inn á völlinn í lok leikhlutans þegar skotklukkan rann út meðan boltinn var í loftinu og flautan gall með 5 sekúndur eftir af leiktíma í leikhlutanum. Kristín Óladóttir sendi boltann yfir endilangan völlinn og var Aníta Rún hársbreidd frá því að setja skot einmitt þegar leikhlutinn rann út fyrir alvöru.
 
Seinasti leikhlutinn fór af stað með látum og Blikastelpurnar náðu aftur forystu í leiknum eftir rúmar þrjár mínútur af hörkuspili á báðum endum vallarins. Pétur Már, þjálfari Fjölnisstúlkna, tók samstundis leikhlé og réð sínum ráðum með leikmönnum sínum. Það skilaði sér í fljótum þristi hjá Mone í næstu sókn þeirra og þær gulklæddu endurheimtu forystuna. Það stóð þó stutt því að Beggó, leikstjórnandi Blika, svaraði í næstu sókn með rándýrum þrist til að ná forystunni aftur. Á næstu tveim mínútum tók hvorugt lið skot innan við þriggja stiga línuna og áhorfendur voru að missa sig úr fögnuði. Næstu 4 körfur voru úr þristum (6 að meðtöldum þristunum hjá Mone og Beggó). Flottasti þristurinn var án efa sá sem Efemía Rún, ein aðalskytta Blika, tók eftir frábæra boltahreyfingu hjá liðinu. Boltinn hafði gengið manna á milli og að lokum náði hún með smá gabbsendingu að losa erlendan leikmann Fjölnis af sér og setti glæsilegt þriggja stiga skot.
 
Með tvær mínútur eftir af leiknum skoruðu Blikastelpur 6 stig á móti 1 stigi Fjölnis og þær gulklæddu neyddust til að byrja að brjóta á Blikum til að stöðva leikklukkuna. Breiðablik var komið í bónus og setti bæði vítaskoti niður. Þrátt fyrir fljótan þrist hjá Mone á hinum enda vallarins var lítið hægt að gera gegn magnaðri vítanýtingu Blika á ögurstundu. Á seinustu mínútunni settu bæði Beggó og Efemía 4 vítaskot og Aníta Rún setti 2 til viðbótar, 10 víti í röð beinustu leið niður! Sigurinn var þar með tryggður og lokastaðan 75-63. Jaleesa Butler, erlendur leikmaður Blika, átti lúmska stjörnuframmistöðu í leiknum en hún skoraði 20 stig, reif niður 20 fráköst, varði 6 skot, gaf 5 stoðsendingar og stal 4 boltum. Hún lauk leik með 40 í framlag og það á aðeins 33 mínútum, vel gert hjá henni.
 
Þar með er frábæru tímabili Breiðabliksstúlkna lokið og ljóst að þær munu keppa við þær bestu á næstu leiktíð í úrvalsdeild kvenna! Til hamingju með það, Blikar!
 
Breiðablik: Jaleesa Butler 20 stig/20 fráköst/6 varin skot/5 stoðsendingar/4 stolnir boltar, Efemía Rún Sigurbjörnsdóttir 16 stig/9 fráköst, Berglind Karen Ingvarsdóttir 15 stig, Helga Hrund Friðriksdóttir 8 stig, Aníta Rún Árnadóttir 4 stig, Ísabella Ósk Sigurðardóttir 4 stig, Kristín Óladóttir 3 stig, Guðrún Edda Bjarnadóttir 3 stig, Ingunn Erla Kristjánsdóttir 2 stig, Alexandra Sif Herleifsdóttir 0 stig, Elín Kara Karlsdóttir 0 stig, Helena Mikaelsdóttir 0 stig.
 
Fjölnir: Mone Laretta Peoples 31 stig/7 fráköst/5 stolnir boltar/3 stoðsendingar, Eyrún Líf Sigurðardóttir 19 stig/7 fráköst/3 stolnir boltar/3 stoðsendingar, Hrund Jóhannsdóttir 5 stig/15 fráköst/3 varin skot, Erla Sif Kristinsdóttir 4 stig, Erna María Sveinsdóttir 2 stig/8 fráköst/3 stoðsendingar, Sigrún Anna Ragnarsdóttir 2 stig, Kristín Halla Eiríksdóttir 0 stig, Telma María Jónsdóttir 0 stig, Brynja Pálína Sigurgeirsdóttir 0 stig, Dagbjört Helga Eiríksdóttir 0 stig, Elísa Birgisdóttir 0 stig, Ragnheiður Erla Stefánsdóttir 0 stig
  
 
Umfjöllun/ [email protected]
Fréttir
- Auglýsing -