spot_img
HomeFréttirRosalegt rúst hjá Stjörnunni - Grindvíkingar í sumarfrí

Rosalegt rúst hjá Stjörnunni – Grindvíkingar í sumarfrí

Það má segja að oddaleikur Stjörnunnar og Grindvíkinga í Garðabæ hafi verið algert “antíklímax” því heimamenn mættu 100 prósent tilbúnir til leiks en Grindvíkingar bara alls ekki. Lítið að segja um leikinn annað en að Stjarnan rústaði Grindvíkingum í þessum oddaleik, 104-72. Stjarnan er komin í undanúrslit og mæta þar Þór frá Þorlákshöfn, en Grindavík er úr leik

Það var ljóst frá byrjun hvort liðið var betur stemmt; heimamenn léku á als oddi og vildu sigur meira en svangur villiköttur rjóma. Í hálfleik munaði 19 stigum, 49-30, og Grindvíkingar kannski enn inni í leiknum, en samt ekki. Það var einfaldlega ekkert sem benti til þess að gestirnir myndu snúa leiknum sér í vil í síðari hálfleik. Enda fór það svo að Stjarnan jók muninn jafnt og þétt og síðari hálfleikur var í raun einn risastór ruslamínútnahaugur. Algjört rótburst Stjörnunnar staðreynd og eins og liðið var að leika í þessum leik lítur það út fyrir að vera óstöðvandi. Leikur Stjörnunnar snýst vissulega mikið í kringum Ægi Þór Steinarsson, enda einn albesti leikmaður deildarinnar, en þegar aðrir leikmenn liðsins gera sig gildandi; berjast eins og brjálæðingar og spila fyrir hvorn annan, þá er þetta einfaldlega lið, í það minnsta, jafnbesta lið deildarinnar. Allt liðið lék vel og á hrós skilið fyrir frábæran alhliða leik. Dúi Jónsson var stórkostlegur í þessum leik og gladdi Stjörnumenn mikið með glæsilegum tilþrifum og var honum fagnað mikið þegar hann fékk heiðursskiptingu í fjórða leikhluta.

Grindvíkingar vilja eflaust gleyma þessum leik sem fyrst, en þurfa engu að síður að læra af honum. Það var einfaldlega líkt og liðið væri bara alls ekki tilbúið í þennan slag, hver svo sem aðalástæðan fyrir því er. Liðið er gott en ansi sveiflukennt. Þegar Grindvíkingar ná saman sem liðsheild eru þeir illviðráðanlegir en því miður fyrir þá gerist það ekki nægilega oft, eða gerðist ekki nægilega oft á þessum tímabili sem nú er búið hjá þeim. Enginn Grindvíkingur átti góðan leik en margir slæman.

Myndasafn (Bára Dröfn)

Tölfræði leiksins

Umfjöllun/ Svanur Snorrason

Fréttir
- Auglýsing -