Rajon Rondo skráði nafn sitt á nokkuð langa sögu Boston Celtics nú rétt áðan með stórleik þegar hann skoraði 29 stig, tók 18 fráköst og sendi 13 stoðsendingar í 97-87 sigri á Lebron James og félögum í CAVS. Boston jafnaði þar með einvígið og hefur hvort lið nú unnið 2 leiki.
Rondo er á góðri leið með að verða lykilmaðurinn í liði Boston Celtics og sýndi svo sannarlega hvað í honum býr í sigrinum í nótt. Hann stýrði liðinu í hverju hraðaupphlaupinu á fætur öðru á meðan Paul Pierce og Ray Allen voru mikið til á bekknum í villuvandræðum.
Leikurinn var kaflaskiptur þar sem Cavs skoruðu fyrstu 7 stig leiksins, en þá hrökk vörnin í gang hjá Celtics og stigin fóru að hrannast inn. Þeir leiddu í hálfleik, 54-45, en Cavs klóruðu í bakkann í þriðja leikhluta og komust einu stigi yfir í lok leikhlutans áður en Celtics svöruðu og fóru með tveggja stiga forskot inn í lokaleikhlutann.
Þar byrjuðu Celtics með tíu stigum í röð og virtust ætla að sigla í örugga höfn áður en Cavs tóku enn einn sprettinn og minnkuðu muninn í eitt stig áður en Rondo og félagar gerðu endalega út um leikinn á lokamínútunum.
Næsti leikur er í Cleveland en sá sjötti verður í Boston.



