spot_img
HomeFréttirRoma tapaði í þríframlengdum leik

Roma tapaði í þríframlengdum leik

9:08

{mosimage}

Lottomatica Roma eru komnir 1-2 undir í einvíginu gegn Montepaschi Siena eftir tap í þríframlengdum leik á útivelli 114-108.  Staðan í hálfleik var 42-38 Siena í vil, Jón Arnór skoraði 6 stig á 16 mínútum.

Heimamenn í Montepaschi Siena höfðu forystuna í upphafi leiksins og leiddu 26-22 eftir fyrsta leikhluta.  Í hálfleik var staðan 42-38 þar sem að gríðarleg stemmning var í höllinni og baráttan svakaleg.  

Í þriðja leikhluta léku gestirnir í Lottomatica Roma vel og náðu þriggja stiga forystu 62-65, en mest náðu þeir fimm stiga forystu 56-61, en einsog áður segir leiddu Roma 62-65 eftir þriðja leikhluta.

Fjórði leikhluti var gríðarlega spennandi og jafn nánast á öllum tölum, Roma höfðu þó meiri forystu og Siena náðu alltaf að jafna eða komast örlítið yfir.  Jón Arnór kom Roma yfir með vítaskoti 78-82 og hálf mínúta eftir af venjulegum leiktíma.  Rimantas og Josehp Forte skoruðu í tvígang fyrir Siena og jöfnuðu leikinn 82-82.  Erazem Lorbek náði að koma Roma yfir 82-84 en Rimantas Kaukenas jafnaði leikinn og framlengja þurfti.

Fyrstu fjögur stigin í fyrstu framlengingunni komu frá heimamönnum og staðan 88-84.  Ognjen Askrabic minnkaði muninn með góðu skoti.  Mikið gekk á og fékk Jón Arnór sína fimmtu villu og þurfti að yfirgefa völlinn, strákurinn búinn að leika gríðarlega vel.  Lonny Baxter skorar úr báðum vítaskotum sínum sem hann fékk í kjölfarið og staðan 90-86 og rúmar tvær mínútur eftir af fyrstu framlengingunni.  Montepaschi Siena komust í 94-87 þegar að rúm mínúta var eftir en átta stig á skömmum tíma frá Dejan Bodiroga jafnaði leikinn 95-95.  Alex Righetti hjá Roma fékk skot í lokin sem geigaði og framlengja þurfti á ný.

Ognejen Askrabic og Dejan Bodiroga skoruðu fyrir Roma og staðan 95-99, heimamenn jöfnuðu 99-99 á skömmum tíma.  Lítið var skorað en Alessandro Tonolli skoraði úr báðum vítaskotum sínum og kom Roma í 99-101.  Mikið gekk á og náði hvorugt liðið að skora, Benjamin Eze var hetja heimamanna, hann var nýkominn inná fyrir Lonny Baxter og skoraði hann um leið og hann fékk á sig ruðningsvillu og aftur var jafnt 101-101.  Alex Righetti hjá Roma klikkaði aftur, nú á þriggjastigaskoti í lokinn og þriðja framlenginginn staðreynd.

Í þriðju framlengingunni komust Roma í 101-105 með víti frá David Hawkins og þrist frá Ognjen Askrabic.  Benjamin Eze minnkaði muninn í 103-105 fyrir Siena þegar að þrjár mínútur voru eftir af þriðju framlengingunni.  Vítaskot frá Benjamin Eze og þristur frá Marco Carraretto komu heimamönnum í góða stöðu 109-105 þegar að rúm mínúta var eftir.  Roma náðu að minnka muninn niður í 109-108 með þremur vítaskotum og spennan algjörlega að fara með áhorfendur í höllinni.  Leikmenn voru farnir að týnast útaf með fimm villur og var Dejan Bodiroga einn af þeim, fimm síðustu stig frá Siena kláruðu þennan magnaða leik og kemur þeim yfir 1-2 í einvíginu.

Leikurinn er einn sá magnaðasti í Ítölsku úrslitakeppninni, þríframlengdur og nánast jafnt á öllum tölum, liðin leiddu mest með þetta 5-7 stig sitt á hvað.  Frábær leikur en Romamenn vita að þeir geta vel sigrað deildarmeistaranna og fer næsti leikur fram í Róm fimmtudaginn 7. júní.

 

www.kr.is/karfa

 

Mynd: www.virtusroma.it

 

Fréttir
- Auglýsing -