spot_img
HomeFréttirRögnvaldur dæmir sinn 1000. leik

Rögnvaldur dæmir sinn 1000. leik

13:57

{mosimage}

Rögnvaldur Hreiðarsson körfuknattleiksdómari mun dæma sinn 1000. leik á vegum KKÍ, þ.e. sem dómaranefnd KKÍ hefur raðað á, nú á sunnudaginn í Grindavík. Hann mun ásamt Kristni Óskarssyni og Sigmundi Má Herbertssyni dæma leik Grindavíkur og Snæfells í Lýsingarbikarnum en Kristinn var einmitt annar af kennurum Rögnvaldar þegar hann tók dómaraprófið í nóvember 1994. Það námskeið sat einmitt Sigmundur líka.

Karfan.is hafði samband við meðdómara hans í fyrsta leiknum, Brynjolf Ægi Sævarsson og bað hann að rifja upp leikinn.

Rögnvaldur er einungis annar dómarinn í sögu íslensks körfubolta sem nær að dæma 1000 leiki á vegum KKÍ en 29. nóvember 1992 dæmdi Jón Otti Ólafsson sinn 1000. leik þegar hann dæmdi leik Breiðabliks og Hauka með Héðni Gunnarssyni. Jón Otti lagði flautuna á hilluna vorið 1994 og hafði þá dæmt 1673 leiki á vegum KKÍ.

Rögnvaldur dæmdi sinn fyrsta leik 22. janúar 1995 þegar hann dæmdi leik KR og Grindavíkur í bikarkeppni stúlknaflokks með Brynjólfi Ægi Sævarssyni. Hlutirnir gengu hratt fyrir sig hjá Rögnvaldi og haustið 1996 varð hann A dómari og dæmdi sinn fyrsta leik í Úrvalsdeild í Smáranum í Kópavogi 1. október þar sem áttust við Breiðablik og Haukar. Í þeim leik var meðdómari Rögnvaldar lærimeistari hans frá dómaranámskeiðinu Kristinn Óskarsson sem einmitt dæmir leikinn á sunnudag með honum. Í liði Breiðabliks fékk Erlingur Snær Erlingsson eina villu en hann lagði seinna skóna á hilluna og dró flautuna fram og hefur dæmt fjölmarga leiki með Rögnvaldi síðan.

Í þessum 1000 leikjum hefur Rögnvaldur dæmt með 75 mismunandi dómurum og oftast hefur meðdómarinn verið Björgvin Rúnarsson en þeir félagar hafa dæmt 119 leiki saman.

Í dag eru Úrvalsdeildarleikir Rögnvaldar orðnir 244 talsins, auk þess sem hann hefur dæmt fjölda leikja í úrslitakeppni karla og kvenna, bikarúrslitaleiki og aðra stórleiki.

Karfan.is setti sig í samband við Brynjólf Ægi sem dæmdi fyrsta leikinn með Rögnvaldi til að forvitnast um hvar hann er í dag og hvort hann myndi eftir leiknum.

Brynjólfur Ægir hætti að dæma fljótlega eftir þennan leik og starfar í dag sem sérfræðingur hjá Landsbankanum og skrifar pistla á deiglan.com í hjáverkum.

Brynjólfur man vel eftir leiknum góða sem eins og hann segir hefði ekki átt að vera mjög eftirminnilegur. "Það er ekki vegna meðdómarans heldur áhorfenda. Þetta er eini leikurinn sem ég man eftir að hafa orðið fyrir aðkasti áhorfenda. Þarna voru mættar allar helstu kannónurnar úr klappliði Grindavíkur, en þær voru frægar á þessum tíma og fóru mikinn á Úrvalsdeildarleikjum, vígalegar og vörpulegar húsmæður. Líklega hafa þetta verið dætur þeirra að spila, því ég hef ekki séð annan eins æsing áhorfenda nema helst í framlengingu í úrslitakeppninni. En þetta var auðvitað bikarleikur. Svívirðingarnar voru a.m.k. talsverðar sem yfir okkur gengu á meðan á leiknum stóð og ég man að ég var alveg gáttaður á þessari hegðun mæðranna fyrir framan stelpurnar. Nökkvi Már Jónsson þjálfaði Grindavíkurstelpurnar minnir mig og mér sýndist hann dauðskammast sín fyrir áhorfendahópinn. Ég man ekki hvernig leikurinn fór, en hann var líklega frekar jafn. Það átti ekki við mig að hafa 20 brjálaðar grindvískar valkyrjur öskrandi á mig af pöllunum og þessi leikur var klárlega ein af ástæðunum fyrir því að ég ílengdist ekki í dómgæslunni, en hefur greinilega haft þveröfug áhrif á Rögnvald!"

Það hefur greinilega verið líf og fjör á pöllunum þarna og spurning hvort ekki þarf að fá þessar valkyrjur á pallana í Grindavík aftur og hvetja sína menn.

Þess má geta að Grindavík sigraði í leiknum 38-37.

[email protected]

Mynd: Gunnar Freyr Steinsson

 

Fréttir
- Auglýsing -