spot_img
HomeFréttirRob Hodgson: Vitum að við verðum betri

Rob Hodgson: Vitum að við verðum betri

15:57

{mosimage}

 

(Rob Hodgson) 

 

Valskonum var spáð ofarlega í Iceland Express deild kvenna í vetur en í fyrstu þremur leikjunum hafa þær kolfallið á prófinu og meiðsli sett strik í reikninginn. Sjálfur hafði Rob Hodgson þjálfari Valskvenna þetta um málið að segja: ,,Þriðja tapið í röð í deildinni, já, það er ekki slæmt,” sagði hann og bar sig vel og var kátur í bragði þrátt fyrir stöðu liðsins í deildini.

 

,,Við erum búin að mæta þremur bestu liðum landsins í jafn mörgum leikjum og höfum verið að glíma við meiðsli í hópnum og erum að bíða eftir erlendum leikmanni. Við vitum að við verðum betri og ég sé augljósar framfarir hjá liðinu í hverjum leik,” sagði Rob í samtali við Karfan.is eftir tapleik Vals gegn Íslandsmeisturum Hauka í Vodafonehöllinni í gærkvöldi.

 

,,Okkur vantar enn stöðugleika, sérstaklega í bakvarðasveitinni. Við fáum bandarískan leikstjórnanda til liðs við okkur fyrr en síðar og erum að klára að fjármagna það verkefni. Valur, eða gamla ÍS-liðið, er lið sem hefur jafnan á miðri leiktíð fengið til sín erlendan leikmann en við viljum fá leikmanninn fyrr og vera með öflugt starf í félaginu. Við viljum á hverju ári vera í baráttu um alla þá titla sem í boði eru,” sagði Rob sem þekktur er fyrir mikinn metnað í þjálfunarstörfum sínum en hann hefur m.a. leikið og þjálfað áður hjá Þór Þorlákshöfn við góðan orðstír.

 

,,Þetta snýst ekki um stöðuna í deildinni núna heldur það að komast inn í úrslitakeppnina og gera vel þar. Við gætum örugglega afsakað okkur einhvern helling en það er gott að vera búinn að fá Signýju aftur inn í hópinn en hún er sterkur leikmaður og á eftir að láta enn betur að sér kveða í næstu leikjum. Við höfum nægilega hæfileika til þess að stilla fram góðu liði og ná langt,” sagði Rob sem sjálfur leikur með karlaliði Vals í 1. deildinni en hefur enn ekki tekið þátt í deildarleik til þessa.

 

,,Ég braut hluta úr annarri hnéskelinni á mér á undirbúningstímabilinu í leik gegn Fjölni og get ekki beðið eftir því að losna við hækjuna og mig er farið að kitla í fingurna eftir því að spila. Ég tel að Valsliðið í 1. deildinni sé ekki að spila sinn besta bolta einmitt núna en það er gott að við séum búnir að vinna fyrstu þrjá leikina,” sagði Rob og augljóst að Valsmenn verða ekkert lamb að leika sér við þegar Rob er kominn að nýju inn í hópinn enda útsjónarsamur og ákveðinn leikmaður.

 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -