21:12:37
Meistaralið Boston Celtics hefur svo sannarlega misst flugið í síðstu leikjum eftir bestu byrjun í sögu deildarinnar og 19 leikja sigurgöngu, þá lengstu í sögu þessa sigursælasta stórveldis NBA-deildarinnar.
Frá því að þeir töpuðu fyrir erkióvinum sínum í LA Lakers á jóladag hefur ekki staðið steinn yfir steini hjá liðinu og þeir hafa nú tapað sex af síðustu átta leikjum sínum. Það hafa aukinheldur ekki verið stórliðin sem hafa verið að taka þá í karphúsið heldur lið undir meðallagi eins og Golden State Warriors, NY Knicks og Charlotte Bobcats, versta sóknarlið deildarinnar, og einnig sæmileg lið sem hafa verið í meiðslavandræðum eins og Portland (án Brandon Roy) og Houston (án T-mac og Shane Battier).
Doc Rivers, þjálfari Boston, segir í viðtali við vef Sports Illustrated að hann hafi séð merki þess að eitthvað myndi undan láta löngu áður en skellurinn kom á móti Lakers.
Ítarleg umfjöllun um Boston og bútar úr viðtali við Doc Rivers og leikmenn hér að neðan…
„Ég var alveg á því á meðan að sigurhrinunni stóð að eitthvað væri að bresta á. Eftir 13 sigurleiki í röð var ég að segja aðstoðarmönnum mínum að ég hefði miklar áhuggjur af okkar spilamennsku. Auðvitað gat ég ekki sagt það opinberlega því við vorum að vinna leikina, en ég sagði leikmönnunum það líka. Ég sagði þeim að þó við værum að vinna leikina værum við ekki eins og við ættum að vera og það stefndi allt í tap.“
Ein af helstu ástæðum þess að Boston hefur látið deigan síga segir Rivers að sé mikið minni breidd en á síðasta ári. Ekki er hægt að líta framhjá því að sterkir reynsluboltar hafa horfið á braut.
Þar má fyrstan nefna James Posey, gríðarlega öflugur varnarmaður og stórhættuleg skytta sem hélt til New Orleans eftir að hafa verið einn af lykilmönnum liðsins í erfiðri úrslitakeppni í fyrra. Hann sá meðal annars um að halda aftur af mönnum eins og LeBron James og Kobe Bryant þannig að mikið fór með honum, en einnig er PJ Brown farinn, og með honum allt sem heitir „bakköpp“ í varnarleiknum þegar Kevin Garnett og Kendrick Perkins setjast á plankann. Sá eini sem kemst næst því er Leon Powe og kannski Glen Davis, sem er meira í því að taka upp pláss en nokkuð annað.
Þá er Eddie House eini bakvörðurinn af bekknum sem getur ógnað með skotum utan af velli, en með Posey fór einnig mikill leiðtogi af bekknum sem var nk. fyrirliði bekksins.
Kannski er stærsta atriðið þó að lið eru ekki lengur skjálfandi á beinunum að mæta Celtics. Mótherjarnir hafa ekki koðnað niður undir pressu frá Garnett og félögum sem hafa lent í miklum vandræðum í vörninni að undanförnu og hafa margoft lent í því að samskiptin inni á vellinum eru ekki nógu góð. Það leiðir til þess að andstæðingarnir eru að finna glufur sem ekki voru áður til staðar.
„Við erum að gera allt of mikið að mistökum í vörninni. Einstaklingsmistök leiða til þess að allir fimm lenda í vandræðum þannig að við verðum að komast aftur á sömu blaðsíðu,“ sagði Paul Pierce og Kevin Garnett tók á sig stærstan hluta af þeirri sök. „Ég tek það á mig. Ég er maðurinn sem á að sjá um að menn séu að tala saman og ég hef ekki verið að standa mig.“
Danny Ainge og hans menn á skrifstofunni hjá Boston hafa verið sveittir við símana í vetur að leitast við að stoppa í þessi göt og hafa Celtics verið orðaðir við flesta leikmenn sem hafa losnað undan samningum, Antonio McDyess, Dikembe Mutombo og fleiri sem falla akkurat að þörfum þeirra, en án árangurs. Nú er skiptaglugginn opinn en Boston hefur, eins einkennilega og það kann að hljóma, harla fátt að bjóða í skiptum utan lykilmanna þar sem kerfið krefst þess að laun manna í skiptum séu þau sömu og sá eini sem er með einhver laun utan lykilhópsins er Brian Scalabrine.
Von þeirra liggur hins vegar í því að menn eins og Stephon Marbury og Joe Smith fái sig lausa og geti því samið við liðið í næsta mánuði, þá fyrir viðráðanlegt verð.
Rivers er þess fullviss að liðsstyrkur berist og liðið geti fundið taktinn aftur. „Mér líst mjög vel á liðið og andann í liðinu. Kannski voru minni spámennirnir hjá okkur að missa sig í gleðinni sem fylgdi meistaratigninni, en ég held að það sé að skána.
Niðurlæging síðustu tveggja vikna ætti að vera næg áminning fyrir liðið að ekkert er gefið í þessum bransa, sérstaklega ekki meistaratitlar. Deildin í ár er uppfull af liðum sem geta hæglega velgt Bostoin og Lakers undir uggum, New Orleans, Portland, Denver, San Antonio, Dallas, Cleveland, Orlando og fleiri hafa fjölmargt til brunns að bera og gætu komið hressilega á óvart með vorinu.
Annað kvöld gæti gefið smá sýnishorn þegar Cleveland tekur á móti Boston í uppgjöri Austursins.
Heimild: si.com og Yahoo! Sports
ÞJ



