Eftir að hafa áttað mig eldsnemma á því í gærmorgun að björninn í sirkusnum sem ætti að vera til sýnis í Húsdýragarðinum væri aprílgabb hélt ég að ég væri sloppinn fyrir horn. Við á Karfan.is höfum lítið verið í því að láta fólk hlaupa aprílgöbb en það hefur þó komið fyrir að einhver vitleysan hafi ratað inn hjá okkur.
Í gær vorum við reyndar teknir allsvakalega í bakaríið. Eftir morgunspjall ritstjórnar varð það niðurstaðan að ekkert yrði aprílgabbið þetta árið. Aðrir miðlar voru bara að standa sig fínt í þessum málum og taugatrekktir körfuknattleiksunnendur þurftu síður en svo á meiri hjartastyrkingu að halda þessi dægrin svo við blésum þetta bara af.
„Náungi“ einn hafði svo samband og sagðist hafa rýnt í athyglisverða frétt á heimasíðu danska sambandsins þar sem Danir væru að gera tilraun með fjögurra dómara kerfi. Grunlausir og einfaldir, sem eru nú engin nýmæli, ákváðum við að bregða undir okkur barnaskóladönskunni því ekki treystum við Google Translate. Þessu var auðvitað snapað yfir á hið ástkæra ylhýra og meira að segja fengin viðbrögð formanns dómaranefndar og hann tjáði sig fjálglega um að þessi tilraunastarfsemi Dana myndi næsta víst fjölga réttindadómurum á Íslandi ef fjögurra manna kerfið yrði að endingu tekið upp hérlendis.
Við auðvitað hlupum aprílgabb því þessi danska frétt var einnig aprílgabb hjá frændum okkar. Þessi „náungi“ einn sem hafði samband var sjálfur Rúnar Birgir Gíslason formaður dómaranefndar KKÍ og hvatti hann okkur eindregið til að greina frá málum…já og gaf okkur meira að segja nokkrar línur í „comment“ eins og við „wanna-be“ íþróttafréttamennirnir og eflaust fleiri segja.
Miðað við samfélagsmiðlana virtust einhverjir lesendur hafa keypt þetta jafn hrátt og við. Ritstjórn hefur þó sett sér það markmið að liggja ekki of lengi óbætt hjá garði og hvatti formann dómaranefndar til að græða augu í hnakkann á sér. Samt hrikalega vel gert að aprílgabba upp á okkur frétt og bæta við snörpu viðtali í þokkabót…spurning hvort ritstjórn ætti að endurhugsa þá starfshætti sína að gera fréttir yfir hádegismatnum.
Ritstjóri Karfan.is



