spot_img
HomeFréttirRitstjórapistill: Látum ekki kappið bera fegurðina ofurliði

Ritstjórapistill: Látum ekki kappið bera fegurðina ofurliði

15:00

{mosimage}

Körfuknattleiksáhugafólk rak eflaust upp stór augu í gær þegar atvinnumennirnir Jakob Örn Sigurðarson og Jón Arnór Stefánsson sömdu við KR í Iceland Express deild karla. Jakob kom frá Univer í Ungverjalandi og Jón Arnór frá stórliði Roma á Ítalíu sem hampaði silfurverðlaunum í ítölsku deildinni á síðustu leiktíð. Hvað veldur spyrja sig eflaust margir og báðir hafa þeir Jakob og Jón gefið sínar skýringar á þessum málum. Bæði hér á Karfan.is og í flest öllum fjölmiðlum landsins.

Óneitanlega er þetta mikið fagnaðarefni fyrir íslenska boltann að fá leikmenn inn í úrvalsdeildina í þessum styrkleikaflokki og það af okkar eigin færibandi. Sá grunur læðist að undirrituðum að fjölmennt verði á pöllunum í Vesturbænum í vetur enda ærin ástæða til. Skeggræður ,,spekinganna” ganga nú út á launaþakið og hversu mikið þessir leikmenn eru að lækka sig í launum og þá sér í lagi Jón Arnór. Skýringarnar sem leikmennirnir sjálfir gáfu bentu einfaldlega til þess að þeir voru ekki mikið að hugsa með buddunni þegar þeir ákváðu að ganga til liðs við KR. Niðurstaðan var sú að þá langaði að koma heim og verja tíma með sínum nánustu en samt komast margir ekki hjá því að spyrja sig; Hversu mikið lækkuðu þeir í launum?

Eftir þessi stóru tíðindi í gær er það miður að ofangreind spurning skuli vera ein af stóru spurningunum sem fólk er að spyrja sig að sem og vangaveltur um hið títtrædda launaþak. Oft vill það verða að fólk sér ekki skóginn fyrir trjánum og eflaust er það svo í þessu tilfelli hjá mörgum. Hefur það hvarflað að einhverjum að Jón Arnór myndi t.d. spila frítt fyrir KR þetta eina ár? Svarið hefur undirritaður ekki á reiðum höndum en gaman væri ef þær vangaveltur myndu skjótast upp í kollinn á fleirum.

Bölsýnismenn myndu eflaust kasta því fram að nú væri íslensku körfuboltaútrásinni lokið og þar fram eftir götum en svo eflaust ekki. Hörður Axel, Jóhann Árni og Brynjar Þór leika erlendis á næstu leiktíð sem og Pavel og Hildur Sigurðardóttir hefur vakið athygli í Sviss. Þá er líklegt að Logi Gunnarsson verði áfram atvinnumaður erlendis. Nokkuð víst þykir að Jón Arnór fari aftur erlendis í atvinnumennsku sem og Jakob og vonandi að fleiri fylgi í kjölfarið. Við þurfum ekki sífellt að bera okkur saman við handbolta eða fótbolta hér á Íslandi í þessum efnum, við þurfum ekki að líta neinum öfundaraugum á aðrar íþróttir og leggjast í volæði yfir því að tveir íslenskir atvinnukörfuboltamenn ákveði að leika eitt tímabil hér heima. Við þurfum ekki heldur að fetta fingur út í launaþakið, það er á ábyrgð KKÍ sem er félögin í landinu sem kusu launaþakið yfir sig. Spjallverjar margir hverjir varpa því fram að það sé verið að gera grín að launaþakinu og allir séu að svindla, ef allir eru að svindla er þá einhver að svindla?

Eins og Valsmenn hafa greypt í stein að Hlíðarenda þá held ég að körfuknattleiksáhugafólki sé tamt að láta ekki kappið bera fegurðina ofurliði heldur flykkjast á völlinn og fylgjast með þróun íslenska boltans. Sér í lagi þegar leikmenn á borð við Jón Arnór og Jakob kjósa að leika hérlendis… nú það hlýtur bara að vera viðurkenning á íslensku deildinni.

Koma Jóns og Jakobs inn í íslensku deildina ætti líka að vera fróðlegur prófsteinn á lið sem hefur nú gefið það opinberlega út að það tefli aðeins fram einum Bandaríkjamanni. Hinir leikmenn liðsins verði af íslensku bergi brotnir. Mjög margir hafa lýst óánægju sinni með fjölda erlendra leikmanna í íslensku úrvalsdeildinni og því ættu KR-ingar nú að vera vel til þess fallnir að verða í fyrsta sinn í mörg mörg ár til þess að verða Íslandsmeistari með einvörðungu einn erlendan leikmann. Jú jú, vissulega eru Jón og Jakob í einhverjum skilninig ígildi erlendra leikmanna en þeir eru íslenskir svo dæmið gengur upp. Ef KR verður Íslandsmeistari með aðeins einn Bandaríkjamann innanborðs ætti það að verða mörgum íslenskum liðum, ekki öllum, hvatning til þess að stóla meira á sína uppöldu leikmenn eða a.m.k. aðkeypta íslenska leikmenn. Liðin úti á landi segjast ekki fá til sín íslenska leikmenn en þau á og í kringum höfuðborgarsvæðið eiga sér ekkert skjól í þeim efnum. Þú berð ekki við manneklu í höfuðborginni!

Umgjörðin um íslenskan körfuknattleik hefur eflst til muna undanfarin ár og það sést best á þeim leikmönnum sem við höfum verið að tefla fram hjá hinum ýmsu liðum á hinum ýmsu mótum hér innanlands sem og erlendis. Íslenskur körfuknattleikur er í góðum farvegi og nýjustu fregnir úr Vesturbænum gefa aðeins góð fyrirheit.

Jón Björn Ólafsson
Ritstjóri Karfan.is

[email protected]

8681061

Fréttir
- Auglýsing -