spot_img
HomeFréttirRisinn úr Hveragerði

Risinn úr Hveragerði

9:19

{mosimage}

Í Sport sem fylgdi með Fréttablaðinu í gær er Óskar Ófeigur Jónsson blaðamaður með skemmtilega umfjöllun um Ragnar Nathanaelsson, hávaxnasta leikmann Iceland Express deildarinnar í vetur.

 

 

Hinn 17 ára Ragnar Nathanaelsson spilaði sína fyrstu leiki í úrvalsdeild í vetur og varð um leið hæsti leikmaður Iceland Express-deildarinnar. Hann nálgast óðum Pétur Guðmundsson og er enn að stækka. Pétur fylgist vel með þróuninni hjá stráknum sem hefur ekki enn fengið tækifæri með yngri landsliðum Íslands.

Í fyrsta sinn í mörg ár er Njarðvíkingurinn Egill Jónasson ekki lengur hæsti leikmaður Iceland Express-deildarinnar. Hinn 216 sm hái og 17 ára gamli Hvergerðingur Ragnar Nathanaelsson fékk nefnilega að stíga sín fyrstu spor með Hamri í deildinni í vetur.

Ragnar kom inn á í sínum fyrsta leik þegar Hamar sótti Þórsara heim á Akureyri. Fyrsta karfan kom í óvæntum sigri Hamars á verðandi deildarmeisturum Keflavíkur og í lokaleiknum gegn ÍR var Ragnar með 6 stig og 7 frá­köst.

Lárus Jónsson, fyrirliði Hamars, hefur fylgst með Ragnari undanfarin ár og hann sá mikinn mun á honum á þessu tímabili. „Hann hefur alla möguleika og það er undir honum sjálfum komið að verða góður. Áhuginn er að aukast hjá honum og hann stóð sig bara ágætlega í þeim leikjum sem hann tók þátt í hjá okkur í vetur. Hann var aðeins með okkur í fyrra en í vetur er hann búinn að vera á fullu. Það er þvílík breyting á honum, hann náði að troða í fyrsta sinn í vetur og núna treður hann á hverri einustu æfingu,“ segir Lárus sem segir hugarfar Ragnars geta hjálpað honum.

„Hann hefur ágætis hugarfar og hann er frekar milli-nagli. Það á samt eftir að reyna almennilega á hann því hann er ungur og ekki búinn að spila mikið,“ segir Lárus en þrátt fyrir að vera þegar orðinn stór og mikill þá þarf strákurinn að styrkja sig. „Hann þarf að styrkja sig líkamlega og þá sérstaklega miðju líkamans því hann er svolítið valtur. Það gæti orðið auðvelt að ýta honum ef hann styrkir sig ekki. Það kemur því hann er svo ungur ennþá,“ segir Lárus.Ragnar hefur gengið í gegnum ýmislegt þrátt fyrir ungan aldur og um tíma var eins og hann ætlaði ekki að enda í körfuboltanum en Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hamars, hefur hjálpað stráknum mikið í vetur og kveikt áhuga hjá honum á að reyna að ná langt í körfuboltanum.Ragnar hefur aldrei verið valinn í unglingalandslið sem mörgum finnst skrítið því ef það er eitthvað sem íslenskan körfubolta vantar þá eru það fleiri stórir menn. Hans tími mun þó örugglega koma haldi hann áfram á sömu braut.

Pétur Guðmundsson er sá körfuboltamaður sem hefur náð lengst en hann spilaði meðal annars með Los Angeles Lakers, San Antonio Spurs og Portland Trailblazers. Pétur er sjálfur 218 sm á hæð og þeir Ragnar hafa hist, gerðu það um síðustu áramót og Pétur hefur sýnt mikinn áhuga á að hjálpa Ragnari í framhaldinu. Hann hefur sem dæmi boðið stráknum til sín þegar Ragnar fer í körfuboltabúðir í Duke í Bandaríkjunum í sumar.

Pétur ráðleggur Ragnari hér neðar á síðunni. „Ég trúi því að hann geti náð langt.  Það er erfitt að fylgjast með úr svona mikilli fjarlægð en ég veit að Gústi er að gera góða hluti fyrir Ragnar og ég treysti honum,“ sagði Pétur um strákinn.

Lárus segir það hafa verið fróðlegt að fylgjast með þeim Pétri og Ragnari. „Það er gaman að segja frá því að Pétur kom á nokkrar æfingar milli jóla og nýárs. Hann  sagði honum meðal annars að fara aldrei út úr íþróttahúsinu án þess að troða. Það kveikti tvímælalaust í honum því hann hefur náttúrulega ekki margar fyrirmyndir hér á Íslandi nema kannski Egil,“ segir Lárus.

Lárus vonast til þess að Ragnar haldi áfram á þeirri braut sem hann komst á í vetur.

„Það skiptir máli að halda honum að körfubolta því það er eins með hann og alla aðra að það er hægt að búa til áhuga. Ég er mjög bjartsýnn en það er undir honum komið hvað hann ætlar að ná langt. Hann getur farið nákvæmlega eins langt og hann vill.“

Ragnar Ágúst Nathanaelsson

Aldur… 17 ára.

Hæð… 216 sm.

Þyngd… 125 kg.

Skónúmer… 51/15 US.

Lítur upp til… Pétur Guðmundsson er sá eini sem ég þarf að líta upp til.

Önnur áhugamál.. Hef mikinn áhuga á tónlist, bæði að spila og hlusta.

5 ráðleggingar Péturs Guðmundssonar til Ragnars

1. Trúðu alltaf á sjálfan þig og vertu sjálfum þér trúr.  Þú munt alltaf vekja athygli vegna hæðarinnar og kemst ekki hjá því að vera í sviðsljósinu.  Vertu hógvær og mundu alltaf hvar þú byrjaðir.  Þú kaust ekki að vera stór.  Það er bara bónus!  Þú ert ekki öðruvísi en aðrir þótt þú sért hærri en fólk mun alltaf halda það.  Hæðin getur hins vegar boðið þér upp á ýmsa möguleika en það er undir þér sjálfum komið hvernig þú vinnur úr þeim.

2. Mundu að menntun er máttur.  Aldrei gleyma að körfubolti er leikur en menntun undirbýr þig fyrir lífið.  Það á við hvort sem þú ert 220 sm á hæð eða 120 sm.  Þú verður að finna rétt jafnvægi þar á milli.

3. Settu þér markmið og mundu að vera alltaf óhræddur við að reyna eitthvað nýtt.  Það er betra að reyna eitthvað og mistakast en að reyna ekki og vita aldrei hvort þú getur það!  Fólk mun hafa ákveðnar væntingar til þín vegna hæðarinnar en mundu að „fólk“ stjórnar ekki lífi þínu.  Treystu þeim sem hafa hjálpað þér hingað!

4. Þeir sem VILJA verða betri finna alltaf „aukatíma“ til að æfa sig.  Mundu að þú „spilar eins og þú æfir“.  Æfðu rétt og þá spilar þú rétt!  Endurtekning, endurtekning… enginn verður meistari án þess að eyða miklum tíma í að æfa það sem hann er búinn að læra.  Þetta á ekki síst við um hávaxna leikmenn.

5. Mundu svo að lokum að svona stór líkami er vél sem þarf gott eldsneyti.  Borðaðu rétt og hugsaðu vel um líkamann og þá eru þér allir vegir færir! 


GANGI ÞÉR VEL! Þinn vinur,  Pétur.

Texti: Óskar Ófeigur Jónsson

Mynd: Fréttablaðið

Fréttir
- Auglýsing -