Undirritaður hefur sjaldan lent í öðru eins. Stemmningin hér í Malaga í leiknum áðan var þvílík og eftir situr maður sveittur en sáttur. Jón Arnór og félagar unnu risa sigur gegn liði Barcelona nú rétt áðan í framlengdum leik en staðan eftir venjulegan leiktíma var 74:74 eftir að Barcelona voru hársbreidd frá því að koma tuðruni ofaní og loka seríunni á síðustu sekúndu leiksins.
Jón Arnór hóf leik í byrjunarliðinu og hóf leik með skothríð, skoraði fyrstu 5 stig liðsins og setti þar með þann tón sem liðið ætlaði sér. Fyrir leikinn höfðu Barcelona farið illa með Malaga á sínum heimavelli og því sigurinn kærkominn. Þetta þýðir að liði hefur tryggt sér leik númer 4 sem fram fer á föstudag hér í Malaga. Viðtal við Jón Arnór eftir leik má sjá hér að neðan.



