spot_img
HomeFréttirRimman um Reykjanesbæ uppfyllti allar kröfur - háspenna í Ljónagryfjunni

Rimman um Reykjanesbæ uppfyllti allar kröfur – háspenna í Ljónagryfjunni

Travis Holmes splæsti í stórleik í kvöld þegar Njarðvík lagði Keflavík 95-93 í Iceland Express deild karla. Holmes gerði 41 stig í Njarðvíkurliðinu, tók 12 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Leikurinn var hnífjafn frá upphafi til enda, Keflvíkingar voru oftar í bílstjórasætinu en Njarðvík gafst aldrei upp og á mjög svo hjartastyrkjandi lokaspretti höfðu grænir það af. Enn eina ferðina erum við að sjá vítaskotin skipta sköpum í spennuleikjum og að þessu sinni var það ein besta skyttan í íslenskum körfuknattleik sem sagði farir sínar ekki sléttar af vítalínunni.
Njarðvíkingar gerðu fjögur fyrstu stig leiksins en þá hrökk Charles ,,buzzer" Parker í gang og gerði sjö stig í röð fyrir gestina og Keflavík skaust skömmu síðar í 9-17 forystu. Heimamenn komu ákveðnir til baka og náðu að jafna metin í 19-19 þar sem Travis Holmes fór fyrir grænum. Njarðvík náði tveggja stiga forystu undir lok leikhlutans en Arnar Freyr Jónsson jafnaði metin með flautukörfu við endalínuna og staðan 23-23 eftir fyrsta leikhluta sem var líflegur og bar góð fyrirheit í nágrannarimmunni. Cameron Echols var nú ekki mikið að hafa fyrir því að leika vörn í fyrsta leikhluta og Jarryd Cole fékk fyrir vikið að gleðja stuðningsmenn Keflavíkur með tveimur troðslum en grænir heimamenn voru eitthvað feimnir á upphafsmínútunum og fengu aðeins dæmda á sig eina villu.
 
Arnar Freyr Jónsson var beittur fyrir Keflvíkinga í öðrum leikhluta og tveir þristar frá honum með skömmu millibili komu Keflvíkingum í 27-35 forystu. Keflvíkingar mættu með svæðisvörn inn í annan leikhluta og heimamenn leystu hana illa, fengu amk. ekki mörg færi á því að sækja að körfunni og fáir aðrir en Holmes fundu körfuna þegar Njarðvíkingar reyndu skot.
 
Oddur Birnir Pétursson kom af Njarðvíkurbekknum með fína rispu, setti fjögur stig fyrir græna en Keflvíkingar með þá Parker og Arnar Frey beitta leiddu 44-53 í leikhléi. Travis Holmes var með 28 stig hjá Njarðvíkingum í hálfleik, kollegi hans Cameron Echols var vart skugginn af sjálfum sér allan fyrri hálfleikinn. Hjá Keflavík var Charles Parker með 20 stig og Arnar Freyr 11.
 
Miðherjinn Almar Guðbrandsson fékk fjórðu villuna sína eftir tuttugu sekúndna leik í þriðja leikhluta og hélt á tréverkið. Njarðvíkingar notuðu eina og hálfa mínútu í það að setja níu stig í röð á Keflavík og jöfnuðu metin í 53-53 eftir þrist frá Ólafi Helga Jónssyni. Halldór Örn Halldórsson og Páll Kristinsson hittust aðeins í ,,tugthúsinu" og jafnt á öllum tölum, sannarlega grannaslagur í gangi.
 
Cameron Echols braggaðist lítið eitt í þriðja leikhluta og skipti það sköpum fyrir Njarðvíkinga. Gestirnir úr Keflavík áttu þó aldrei í vandræðum með að komast upp að Njarðvíkurkörfunni og gekk heimamönnum illa að binda vörnina saman. Maciej Baginski jafnaði leikinn í 68-68 fyrir Njarðvík með þriggja stiga körfu en Arnar Freyr lokaði leikhlutanum fyrir Keflavík sem leiddu 68-70 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Njarðvíkurstúkan framkallaði titring á skjálftamælum þegar Travis Holmes reyndi lokaskot í þriðja leikhluta og töldu grænir að brotið hefði verið á honum. Alls ekki ósanngjarnt hjá heimamönnum að biðja um villu en dómarar leiksins voru ekki sammála og leiktíminn rann út.
 
Maciej Baginski hélt Njarðvík við efnið framan af fjórða leikhluta, tveir þristar frá þessum efnilega leikmanni minnkuðu muninn í 74-75 áður en Valur Orri Valsson kom Keflavík í 75-80 með þriggja stiga körfu. Keflvíkingar náðu svo 77-84 forystu þegar sex mínútur voru til leiksloka. Njarðvíkingar létu ekki stinga sig af og með mann leiksins, Travis Holmes, í broddi fylkingar náðu þeir að jafna metin í 86-86 þegar þrjár mínútur voru eftir.
 
Elvar Már Friðriksson sýndi stáltaugar í tvígang þegar hann setti niður víti fyrir Njarðvíkinga og kom grænum í 91-88. Arnar Freyr Jónsson minnkaði muninn í 91-90 með glæsilegu gegnumbroti og Charles Parker kom Keflavík í 91-92 þegar 42 sekúndur voru til leiksloka og allt á suðupunkti í Ljónagryfjunni.
 
Travis Holmes kom Njarðvík í 93-92 og í næstu Keflavíkursókn fóru þeir félagar Parker og Cole illa af ráði sínu eftir að slæleg sending frá Parker hafnaði utan vallar. Keflavík braut því strax á Njarðvík í næstu sókn og þar sem heimamenn voru með skotrétt fór Holmes á línuna og jók muninn í 95-92.
 
Charles Parker reyndi erfitt þriggja stiga skot í næstu Keflavíkursókn og í frákastabaráttunni var Njarðvík dæmdur boltinn þegar sex sekúndur voru eftir. Keflavík pressaði og Njarðvíkingar misstu boltann af velli þegar 4,6 sekúndur voru eftir. Keflavík fann þá Magnús Þór í hægra horninu og hann fór upp í erfitt skot en Travis Holmes braut á honum. Magnús átti því þrjú víti og þessi ein allra besta skytta íslensks körfuknattleiks mátti sjá á eftir fyrsta vítinu skoppa upp úr hringnum. Magnús setti niður annað vítið en brenndi vísvitandi af því þriðja. Cameron Echols fór þá hæst allra, náði frákastinu og Njarðvíkingar fögnuðu sigri í mögnuðum grannaslag.
 
Travis Holmes var óumdeilt maður leiksins í kvöld, Cmeron Echols kom aðeins til í síðari hálfleik en þeir Elvar Friðriksson og Maciej Baginski áttu góðar rispur sem og Ólafur Helgi Jónsson. Hjá Keflavík fór Charles Parker fyrir liðinu í stigaskorinu en Arnar Freyr Jónsson var sömuleiðis skeinuhættur. Keflvíkingar söknuðu framlagsins frá Magnúsi Þór en kappinn setti aðeins fimm stig í leiknum og höfðu Njarðvíkingar á honum góðar gætur.
 
Heildarskor:
 
Njarðvík-Keflavík 95-93 (23-23, 21-30, 24-17, 27-23)
 
Njarðvík: Travis Holmes 41/12 fráköst/6 stoðsendingar, Maciej Stanislav Baginski 15, Cameron Echols 15/15 fráköst, Elvar Már Friðriksson 10/6 stoðsendingar, Ólafur Helgi Jónsson 9, Oddur Birnir Pétursson 4, Páll Kristinsson 1/5 fráköst, Jens Valgeir Óskarsson 0, Sigurður Dagur Sturluson 0, Styrmir Gauti Fjeldsted 0.
 
Keflavík: Charles Michael Parker 35/8 fráköst, Jarryd Cole 25/8 fráköst, Arnar Freyr Jónsson 19/7 stoðsendingar, Halldór Örn Halldórsson 5/8 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 5/7 stoðsendingar, Valur Orri Valsson 3, Almar Stefán Guðbrandsson 1, Gunnar H. Stefánsson 0, Andri Þór Skúlason 0, Ragnar Gerald Albertsson 0, Hafliði Már Brynjarsson 0, Sigurður Friðrik Gunnarsson 0.
 
Byrjunarliðin:
 
Njarðvík: Elvar már Friðriksson, Ólafur Helgi Jónsson, Travis Holmes, Páll Kristinsson og Cameron Echols.
 
Keflavík: Valur Orri Valsson, Magnús Þór Gunnarsson, Charles Parker, Halldór Örn Halldórsson og Jarryd Cole.
 
Umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]
 
Fréttir
- Auglýsing -