spot_img
HomeFréttirRimma Grindavíkur (1) og Skallagríms (8)

Rimma Grindavíkur (1) og Skallagríms (8)

Deildarmeistarar Grindavíkur og nýliðar Skallagríms eru að mætast í úrslitakeppninni í sjötta sinn og alltaf skal það vera í 8-liða úrslitum. Grindavík hefur fjórum sinnum slegið Borgnesinga út úr keppninni en árið 2006 hafði Skallagrímur betur og lék það ár til úrslita gegn Njarðvíkingum. Liðin mætast í sjötta sinn í átta liða úrslitum í kvöld og er fyrsti leikurinn í Röstinni í Grindavík þar sem gulir heimamenn hafa heimaleikjaréttinn.
 
Grindvíkingar hafa tvívegis orðið Íslandsmeistarar og eiga einnig silfurverðlaun eftir rimmur um þann stóra. Skallagrímsmenn hafa einu sinni farið í lokaúrslit en það var árið 2006 og máttu þá lúta í lægra haldi gegn Njarðvíkingum.
 
Grindvíkingar luku keppni á toppi deildarinnar þetta tímabilið en Borgnesingar höfnuðu í 8. sæti og töpuðu í hörku slag í lokaumferðinni gegn Þór Þorlákshöfn. Í þessari rimmu mætast lið þar sem annað þeirra tapaði aðeins fjórum deildarleikjum og er deildarmeistari. Hitt liðið er nýliði og tapaði fimmtán deildarleikjum af 22. Spámenn þykjast anda létt yfir þessari rimmu en hafa skal það hugfast að líkast til eru Borgnesingar með bestu stuðningssveitina þetta tímabilið og það gæti reynst eldflaugaeldsneyti á tanka Skallagrímsmanna.
 
Í sveit Grindavíkur er valinn maður í hverju rúmi. Ómar Örn Sævarsson missir líklega af leik kvöldsins vegna meiðsla en vonast til að vera klár í slaginn að honum loknum. Broussard, Pettinella og Zeglinski verða illir viðureignar og teigur Grindavíkur mun vega þungt hérna gegn lágvöxnum Borgnesingum svo það er fyrirséð að Sigurður G. Þorsteinsson, Pettinella og Broussard muni láta finna vel til tevatnsins. Jóhann Árna og Þorleif þarf vart að kynna til leiks og af tréverkinu detta inn Óli Óla, Daníel Guðmunds, Björn Steinar og framtíðarstjarnan Jón Axel. Valinn maður í hverju rúmi í Grindavík og mun dýpt þeirra teygja vel á Borgnesingum.
 
Skallagrímsmenn þurfa ofurleiki frá Medlock, ekkert annað dugir, kappinn hefur s.s. skilað sínu, það hefur ekki vantað en Borgnesingar þurfa að binda saman vörnina og mun mikið mæða á Páli Axel, Herði Helga og Trausta Eiríks í kringum körfuna. Sigmar Egilsson er reyndastur allra í báðum liðum og fátt sem kemur þessari Duracell-kanínu úr jafnvægi, gamli seigur þarf að draga fram spariskóna og blása vindi í segl sinna manna. Það er mikilvægt fyrir nýliðana að Egill Egilsson komist ekki síðar en strax í gírinn og að þeir Davíð Ásgeirsson, Orri Jónsson og Birgir Þór Sverrisson stígi vel upp. Grindvíkingar vissulega sigurstranglegra liðið en það verður fróðlegt að sjá hvað Davíð gerir gegn Golíat!
 
Fyrri viðureignir liðanna á tímabilinu:
Liðin mættust í fyrri deildarleiknum í Borgarnesi í nóvember þar sem Grindvíkingar mörðu 93-86 sigur. Í seinni leiknum í Grindavík síðla febrúarmánaðar hafði Grindavík stóran 107-65 sigur. Þess má þó geta að Páll Axel Vilbergsson lék ekki með Skallagrím gegn Grindavík í hvorugum deildarleiknum en hann mætir galvaskur gegn uppeldisfélaginu í kvöld en sögunnar menn muna að hann lyfti sjálfum Íslandsbikarnum fyrir Grindavík í lok síðustu vertíðar.
 
Viðureign 3:
Grindavík(1)-Skallagrímur(8)
Leikur 1 Föstudagur 22 mars kl. 19.15 Grindavík
Leikur 2 Mánudagur 25 mars kl. 19.15 Borgarnes
Leikur 3 Fimmtudagur(skírdagur) 28 mars kl. 19.15 – ef þarf Grindavík
 
Tölur liðanna á tímabilinu, deildarkeppni
 
Grindavík:
 
Besta liðsskipan eftir +/- tölfræði
Sammy Zeglinski, Þorleifur Ólafsson, Jóhann Árni Ólafsson, Aaron Broussard og Sigurður Þorsteinsson.
 
Tveggja stiga nýting á heima- og útivelli: 50,8% – 50,6%
Þriggja stiga nýting á heima- og útivelli: 36,5% – 37,5%
Vítanýting á heima- og útivelli: 70,3% – 73,3%
 
Skallagrímur:
 
Besta liðsskipan eftir +/- tölfræði
Carlos Medlock, Haminn, Páll Axel Vilbergsson, Sigmar Egilsson og Hörður Helgi Hreiðarsson.
Besta +/- lið Skallagríms án Haminn sem var látinn fara frá félaginu er svo:
Carlos Medlock, Trausti Eiríksson, Páll Axel Vilbergsson, Sigmar Egilsson og Hörður Helgi Hreiðarsson.
 
Tveggja stiga nýting á heima- og útivelli: 51,6% – 46,9%
Þriggja stiga nýting á heima- og útivelli: 32,5% – 31,3%
Vítanýting á heima- og útivelli: 73,4% – 65,9%
 
Mynd/ Ómar Örn
  
Fréttir
- Auglýsing -