Hlaðvarpið Boltinn lýgur ekki kom saman nú um áramótin og fór yfir árið 2025 í árlegri áramótabombu sinni.
Með Véfréttinni Sigurði Orra Kristjánsyni var þar eins og svo oft áður blaðamaðurinn Siggeir Ævarsson.
Hérna er hægt að hlusta á þáttinn á Spotify, en þá er hann einnig aðgengilegur á öllum hlaðvarpsveitum undir nafninu Boltinn lýgur ekki.
Líkt og venja er í áramótauppgjöri er farið yfir farinn veg síðasta árs og verðlaunað í hinum ýmsu flokkum.
Einn þeirra flokka er verðlaunað var fyrir síðasta ár var rifrildi ársins. Þrjú rifrildi voru tilnefnd, en það sem var útnefnt sem rifrildi ársins voru deilur Kristófers Acox og landsliðsþjálfara Íslands Craig Pedersen. Deilur Kristófers og íslenska landsliðsins voru þó ekki beint miklar á árinu, þó fjölmiðlum landsins hafi mörgum verið afar umhugað um að skrifa um þær.
Ástæðan líklega sú að íslenska landsliðið var á leiðinni á lokamót EuroBasket 2025, en þrátt fyrir að vera einn besti leikmaður Bónus deildarinnar hefur Kristófer ekki leikið fyrir íslenska landsliðið síðan 2023. Fátt nýtt kom fram í deilum hans og þjálfara íslenska liðsins á árinu 2025, og í raun og veru bætti hvorugur þeirra neinu miklu við á árinu er varðaði þær, en samt sem áður var mikið skrifað og rætt um afhverju Kristófer væri ekki í íslenska landsliðinu.
Hér fyrir neðan má sjá hvaða rifrildi þóttu best á árinu og í þættinum má heyra umræðuna.
Rifrildi ársins 2025
Máté Dalmay gegn öllum
Kristófer Acox gegn Craig Pedersen
Davíð Tómas gegn dómaranefnd



