spot_img
HomeFréttirReynslan dugði fram að hálfleik

Reynslan dugði fram að hálfleik

22:23 

{mosimage}

Vindar fortíðar léku um hólf og gólf í Sláturhúsinu í kvöld þegar Grindvíkingar höfðu sigur á Keflavík B. Lokatölur leiksins voru 88-116 Grindavík í vil en aðeins tvö stig skildu liðin að í hálfleik. Grindvíkingurinn Pétur Guðmundsson lék sinn kveðjuleik í kvöld en svo skemmtilega vill til að hann hóf sinn meistaraflokksferil einmitt með Keflavík B.

 

Lið Keflavíkur B var skipað valinkunnum leikmönnum og það voru engar smá kanónur sem hófu leik á parketinu í Sláturhúsinu. Jón Kr. Gíslason kom upp með boltann og honum til aðstoðar í bakvarðastöðum voru Guðjón Skúlason og Falur Harðarson. Albert Óskarsson og Sigurður Ingimundarson mönnuðu blokkina.

 

Páll Axel Vilbergsson opnaði leikinn með þriggja stiga körfu og bauð þannig gömlu hetjurnar velkomnar til leiks. Sigurður Ingimundarson minnkaði muninn í 2-3 en hann gerði fjögur fyrstu stig Keflavíkur B.

 

Vel var mætt á leikinn og við hverja körfu sem Keflavík B skoraði var jafnan mikið fagnað. Búist var við því að Grindavík, sem eiga titil að verja, myndu stinga af snemma leiks en reynsluboltarnir hleyptu þeim ekki of langt í burtu.

{mosimage}

 

Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 23-30 fyrir Grindavík en dómarar leiksins neituðu að dæma flautukörfu Fals Harðarsonar gilda er hann skaut frá miðjum leikvellinum, spjaldið ofan í. Mótmæli leikmanna Keflavíkur B og áhorfenda létu ekki á sér standa en dómarar leiksins stóðu fastir á því að leiktíminn hefði verið runninn út.

 

Áfram tókst Keflavík B að hanga í pilsfaldi Grindavíkur og komust nokkrum sinnum yfir í leiknum. Bikarmeistararnir tóku þó á rás í síðari hálfleik og það reyndist Keflavík B um megn. Páll Axel fór fyrir þriggja stiga skotsýningu í þriðja leikhluta og Keflavík B hafði einfaldlega ekki bolmagn til þess að fylgja Grindavík eftir.

 

Hetjurnar úr Keflavík geta verið sáttar við sitt hlutskipti í leiknum og sýndu að reynslan getur vegið þungt, í það minnsta fyrstu 20 mínútur leiksins.

 

Guðjón Skúlason gerði 16 stig fyrir Keflavík B, Sigurður Ingimundarson 12, Albert Óskarsson 9, Falur Harðarson 2 og Jón Kr. Gíslason 1. Stigahæstur var þó Jermaine Williams með 25 stig. Hjá Grindavík gerði Páll Axel Vilbergsson 25 stig og eru Bikarmeistararnir komnir áfram í 8-liða úrslit Lýsingarbikarsins.

 

Frétt og myndir af www.vf.is

Sjá einnig myndasafn á vf.is frá leik Keflavíkur B og Grindavíkur

Fréttir
- Auglýsing -