spot_img
HomeFréttirReykjanesbær fer á hvolf í kvöld!

Reykjanesbær fer á hvolf í kvöld!

Tvisvar sinnum á leiktíð er fólki í Reykjanesbæ tryggð örugg skemmtun með deildarviðureignum Keflavíkur og Njarðvíkur í úrvalsdeild karla. Í kvöld er komið að seinni deildarleik liðanna. Stöð 2 Sport tryggir landsmönnum aðgang að viðureigninni í beinni útsendingu og hefjast leikar kl. 19:15.
 
 
Montrétturinn innan sveitarfélagsins er ekki einn að veði því það er ýmislegt í húfi. Keflvíkingar eiga í harðri samkeppni við KR á toppi deildarinnar og eiga leik kvöldsins til góða. Sigur hjá Keflavík tryggir þeim 26 stig og sæti við hlið KR í toppsætinu. Jafnframt tryggir Keflavíkursigur þeim átta stiga forystu á Njarðvíkinga. Grænir gestirnir geta svo með sigri í kvöld jafnað Grindavík í 3. sæti sem hefur 20 stig og minnkað muninn á Keflavík í 2. sæti deildarinnar niður í 4 stig og þannig þétt enn betur baráttuna um sjálfan deildarmeistaratitilinn.
 
Vert er að minnast á fyrri deildarviðureign liðanna í Ljónagryfjunni sem var mikil rússíbanareið og lauk með því að Grafarvogspilturinn með Keflavíkurblóðið, Gunnar Ólafsson, lokaði þeim slag fyrir Keflavík með þriggja stiga körfu í andarslitrum leiksins. Viðureign kvöldsins má því vera ansi fjörug til að standast samanburðinn við leikinn í Njarðvík.
 
Keflvíkingar munu bjóða upp á grillaða hamborgara fyrir leik sem snjallir áhorfendur ættu að nýta sér enda ekki úr vegi að mæta snemma því pallarnir verða þétt setnir! Karfan.is tók púlsinn á liðunum á æfingu í gær og þar voru menn að kynda á víxl:
 
 
Úrslit síðustu 10 deildarleikja Keflavíkur og Njarðvíkur á heimavelli Keflavíkur:
 
13. des 2012: Keflavík 91-92 Njarðvík
8. des 2011: Keflavík 92-72 Njarðvík
22. nóv 2010: Keflavík 78-72 Njarðvík
3. nóv 2010: Keflavík 82-69 Njarðvík
2. mars 2009: Keflavík 73-83 Njarðvík
27. jan 2008: Keflavík 75-88 Njarðvík
23. feb 2007: Keflavík 70-83 Njarðvík
9. mars 2006: Keflavík 89-73 Njarðvík
27. feb 2005: Keflavík 94-82 Njarðvík
30. jan 2004: Keflavík 90-83 Njarðvík
 
Hér má svo sjá yfirlit yfir alla leiki dagsins
  
Fréttir
- Auglýsing -