spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaReykjanesbær er iðablár

Reykjanesbær er iðablár

Keflavík B marði seiglusigur gegn Njarðvík í 1. deild kvenna

Eins og þegar karlalið nágrannafélagana í Reykjanesbæ mættust á dögunum þá voru það Keflvíkurstúlkur sem tóku öll stigin sem í boði voru þegar Keflavík B tók á móti ljónynjunum úr Njarðvík í Blue höllinni við Sunnubraut í dag. Leikurinn var sveiflukenndur og æsispennandi fram á lokasekúndur en að lokum náðu heimastúlkur að kreista fram fimm stiga sigur, 62-57.

Gangur leiksins

Það voru gestirnir sem mættu mun grimmari til leiks og tóku snemma öll völd á vellinum. Njarðvík bauð upp á líflega pressuvörn eftir skoraðar körfur og mættu gestgjöfunum af mikilli hörku sem kom flatt uppá heimakonur og virtust þær engan veginn tilbúnar í slaginn. Njarðvík komst í 0-7 og vann fyrsta leikhlutann 5-17 þar sem vörnin var nánast loftþétt allar 10 mínúturnar ásamt því að boltinn fékk að flæða snyrtilega í sókninni sem skilaði góðum körfum.

Til marks um ákefðina var Erna Traustadóttir komin með 3 villur snemma leiks en hún var einnig að skila virkilega góðu framlagi í sókninni áður en hún neyddist til að taka sér sæti og bitnaði það aðeins á sóknarleik þeirra grænklæddu sem hleyptu Keflavík aðeins nær á meðan hún sat. Heimakonur komu aðeins einum leikmanni á blað í 1. leikhluta og fór fljótt að bera á því að leikmenn ættu erfitt með mótlætið. Liðið fór að finna taktinn ögn betur er leið á 2. leikhlutann en óhætt er þó að segja að liðið hafi ekki mætt þeim krafti sem gestirnir sýndu á báðum vallarhelmingum og var staðan í hálfleik 21-31 fyrir Njarðvík. Stemmningin í liði gestana var hátt gíruð og allir á varamannabekk sem og Rúnar Ingi Erlingsson og Ragnar Friðriksson, þjálfarar, samtaka í öllum aðgerðum.

Það var þó allt annað Keflavíkurlið sem mætti til leiks í síðari hálfleikinn. Hörður Axel Vilhjálmsson, þjálfari þeirra, hefur eflaust blásið þeim byr undir báða vængi í hálfleiknum því Keflavík setti á sig stríðshjálminn og breytti stöðunni í 29-32 um miðbik 3. leikhlutans og náðu svo að jafna leikinn í 35-35 skömmu síðar með baráttugleði og þéttri vörn. Ljónynjurnar tóku þá 0-7 rispu þar sem Vilborg Jónsdóttir lét til sín taka og náðu gestirnir að halda í 6 stiga forystu fyrir lokaleikhlutann, 40-46.

4. leikhluti var æsispennandi, barist var um hvern lausan bolta og taugar leikmanna vel þandar. Keflvíkingar hótuðu alltaf að komast fram úr, náðu að jafna aftur í stöðunni 52-52 en Njarðvíkingar ríghéldu í forystuna, hreinlega neituðu að afhenda keflið og svöruðu jafnharðan. Keflavík komst svo tveimur stigum yfir með risastórum þristi frá Önnu Ingunni Svansdóttur þegar um 80 sekúndur voru eftir og í kjölfarið misstu gestirnir boltann sem Keflavík nýtti sér til að klára dæmið. Heimakonur héldu ró sinni í sókninni og gerðu það sem til þurfti til að loka leiknum og lönduðu sætum seiglusigri í skemmtilegum körfuboltaleik. Lokatölur 62-57.

Hverjar stóðu uppúr?

Anna Ingunn Svansdóttir var stigahæst í liði Keflavíkurkvenna með 17 stig og nokkur þeirra mjög stór á lokakafla leiksins. Eftir erfiðan fyrri hálfleik þar sem Anna komst lítt áleiðis gróf hún djúpt til að leiða liðið yfir endamarkið þegar á þurfti og stal einnig 4 boltum.

Elsa Albertsdóttir átti mjög góðan síðari hálfeik. Mikið mæddi á Elsu undir körfunni í baráttu við þær Þuríði Birnu og Láru Ösp sem létu vel finna fyrir sér og voru erfiðar að eiga við í hindrunum og frákastabaráttunni. Elsa lauk leik með 6 stig, 10 fráköst og 5 stoðsendingar en gerði líka mjög vel í þeim þáttum leiksins sem ekki sjást í tölfræðiskjalinu.

Eydís Eva Þórisdóttir skilaði líka mjög góðum leik, skoraði 13 stig, tók 12 fráköst.

Hjá Njarðvík voru Erna Traustadóttir og Lára Ösp Ásgeirsdóttir stigahæstar með 14 stig hvor.

Vilborg Jónsdóttir átti líka fínan leik og daðraði við þrennuna; skoraði 11 stig, tók 12 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. 8 tapaðir boltar skyggja þó á frammistöðuna.

Þá ber að hrósa baráttugleði Þuríðar Birnu Björnsdóttur en hún átti stóran þátt í því að Njarðvíkingar héldu dampi í hvert sinn sem Keflavík nálgaðist. Þuríður lét sig vaða í alla bolta og gaf mikið af sér, hélt lífi í mörgum 50/50 boltum, lét finna vel fyrir sér og breytti mörgum skotum mótherja sinna.

Hvað þýða úrslitin?

B-lið Keflavíkur tekur sér sæti á toppi deildarinnar með 6 stig eftir 4 leiki og spilar næst við hina nágranna sína, Grindavík b, 2. nóvember í Röstinni.

Njarðvík situr í 3. sæti, einnig með 6 stig, eftir 5 spilaða leiki og etur einnig næst kappi við b lið Grindavíkur. Sá leikur er þó seinna á ferðinni eða þann 10. nóvember í Ljónagryfjunni.

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Sigurður Friðrik Gunnarsson

Viðtöl / Þormóður Logi Björnsson

Myndir / Jón Björn Ólafsson

Fréttir
- Auglýsing -