spot_img
HomeFréttirRay Allen hetja Celtics

Ray Allen hetja Celtics

08:48:07
Ray Allen var hetja sinna manna í nótt þegar hann tryggði Boston Celtics sigur á Chicago Bulls í öðrum leik liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppni NBA. Lokatölur voru 118-115 og er staðan í einvíginu því jöfn þegar leikirnir flytjast yfir til Chicago en þar gætu Bulls klárað dæmið eftir að hafa stolið sigri í fysta leik.

Í hinum leik næturinnar jöfnuðu San Antonio Spurs metin gegn Dallas Mavericks með öruggum sigri, 105-84, sem hefði hæglega getað verið stærri.

Leikur Chicago og Boston var æsispennandi líkt og fyrsti leikur liðanna en Boston tók frumkvæðið til að byrja með. Chicago lenti í villuvandræðum og á meðan voru Rajon Rondo og Glen Davis að eiga stórleiki fyrir Boston.

Bulls héngu þó inni í leiknum og komust yfir í öðrum leikhluta eftir að Rajon Rondo meiddist á fæti og þurfti að láta líta á meiðslin.

Eftir að hafa átt afleitan leik í fyrri hálfleik hrökk Ray Allen í gang í þeim seinni og var hálfpartinn í skotkeppni við Ben Gordon sem átti einnig stórleik. Þá kom Rondo einnig inn að nýju og virðist ekki hafa slasast alvarlega.

Lokakaflinn var æsispennandi og hefði getað fallið með hvoru liðinu sem var. Gordon jafnaði leikinn þegar 12 sek voru eftir, en í síðustu sókn Boston sendi Rondo boltann á Ray Allen sem var frír hægra megin og lét ekki bjóða sér gott skot tvisvar. Hann smellti niður þristinum og sá til þess að Boston færi alla vegana með einn sigur til Borgar vindanna, þar sem næstu þrír leikir fara fram. Tyrus Thomas átti síðasta skot leiksins, frá miðju, en það geigaði.

Dallas komu á óvart með því að sigra í fyrsta leiknum, en Tony Parker ætlaði ekki að hleypa Mavs heim með tvo sigra í farteskinu. Hann skoraði 19 stig í fyrsta leikhluta og fór sínu fram þar sem Dallas réði ekkert við hann.

Á sama tíma voru lykilmenn Dallas ekki að skila sínu. Dirk Nowitzki var með 14 stig líkt og Jason Kidd og Josh Howard var bara með 7 stig.

Tony Parker fór af velli með 38 stig og Tim Duncan og Drew Gooden voru með 13 stig hvor.

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -