spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaRassskelling sem endaði með leiðindum

Rassskelling sem endaði með leiðindum

Undirritaður þykist vita að draumar um Íslandsmeistaratitil í ár halda ekki vöku fyrir Garðbæingum þetta tímabilið. Ungir og efnilegir leikmenn hafa fengið mikil tækifæri á gólfinu í vetur og hafa farið vaxandi. Tal um fallbaráttu er hins vegar bara smá dramatík í meistara Arnari, Stjörnumenn stefna vafalaust að því að tryggja sér miða inn í úrslitakeppnina því miði er jú möguleiki.

Blikar voru gestir Umhyggjuhallarinnar í kvöld og í raun er ástæða til að hafa meiri áhyggjur af andlegu ástandi þeirra en Stjörnumanna. Blikar hafa aðeins unnið 1 leik af síðustu 9 en svo undarlega vill til að sá sigur kom gegn Íslands- og bikarmeisturum Vals! Blikar sitja enn í úrslitakeppnissæti, nánar tiltekið sæti 6, aðeins tveimur stigum á undan Stjörnunni sem eru í 10. sæti. Gestirnir úr Kópavoginum gætu því auðveldlega endað fyrir neðan 8. sætið og gera það ef marka má árangurinn undanfarið.

Kúlan: ,,Blikar! Piff, þeir geta ekki neitt. Stjarnan vinnur 106-95“.

Byrjunarlið

Stjarnan: Gutenius, Addú, Júlíus, Darbo, Moore

Breiðablik: Julio, Danero, Smith, Everage, Riggs

Gangur leiksins

Andlegt ástand Blika virtist svo sannarlega ekki vera upp á marga fiska í fyrsta leikhluta. Það er orðið svolítið þreytt að tala um slakan varnarleik Blika en hann var það óumdeilanlega, heimamenn fengu þau skot sem þeim sýndist og það rataði allt rétta leið. Leikhlutinn var rétt hálfnaður er Stjarnan hafði náð 20 stiga forystu og þannig stóð eftir 10 mínútna leik, staðan 37-17! Stjörnumenn smelltu 8 þristum í 13 skotum á móti einum ræfli í 11 skotum gestanna.

Heimamenn skoruðu fyrstu 5 stig annars leikhluta og það stefndi í gersamlega miskunnarlausa slátrun! Sjá mátti fyrir sér fréttir þess efnis strax í kvöld að búið væri að leggja niður körfuboltadeild Blika – það myndi hvort eð er enginn sakna hennar í Kópavoginum! En það getur reynst snúið að ná miklu forskoti snemma og hlutirnir gátu ekki annað en skánað hjá gestunum. Menn fóru að spila vörn eins og heiðurinn skipti þá einhverju máli, með því komu stolnir boltar og auðveld stig í kjölfarið. Siggi P minnkaði muninn í 12 stig með þristi rétt fyrir hálfeik, staðan 60-48 og ekki öll von úti fyrir Blika.

Gestirnir virtust lítið hafa lært af fyrsta leikhlutanum og sá þriðji byrjaði á svipuðum nótum. Heimamenn settu fyrstu 8 stigin og munurinn aftur kominn upp í 20 stig! Gutenius var vel tengdur sem og Darbo hjá Stjörnunni en Smith og Everage klóruðu sína menn áfram og að leikhlutanum liðnum stóðu leikar 86-68. Annar eins munur hefur sést hverfa eins og dögg fyrir sólu í allnokkrum leikjum í vetur sem og í leik liðanna í húsinu á síðustu leiktíð!

Blikar héldu áfram að berjast og eftir fína byrjun í fjórða leikhluta minnkaði Everage muninn í 89-80 þegar enn voru 8 mínútur eftir. Stjörnumenn gerðu hins vegar ljómandi vel í kjölfarið og svöruðu áhlaupi gestanna með 15-2 kafla, staðan 104-82 og aðeins 4 og hálf eftir af leiktímanum og úrslit svo gott sem ráðin. Það reyndist rétt metið en við tóku einhverjar lengstu og leiðinlegustu lokamínútur sem sögur fara af. Ástæðan var innbyrðispælingar þjálfara liðanna, Stjörnumenn þurftu 12 stiga sigur og liðin tóku hvert leikhléið á fætur öðru og leikurinn snerist upp í röfl, tuð, villur, umdeilanlegar óíþróttamannslegar villur, vítaskot og þess lags leiðindi. Til að gera fulllanga sögu styttri enduðu leikar með 15 stiga sigri Stjörnunnar, fullnaðarsigur þar sem innbyrðisstaðan er Stjörnupiltum í hag.

Menn leiksins

Gutenius spilaði frábærlega í kvöld, setti 29 stig, tók 8 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Darbo var á svipuðum slóðum, skoraði 28 stig, tók 5 fráköst og gaf 9 stoðsendingar. Stjarnan fékk þar að auki gott framlag úr ýmsum áttum og ekki er hægt að væna liðið um andleysi í kvöld.

Everage bar af í liði gestanna, setti 30 stig, tók 5 fráköst og gaf einnig 5 stoðsendingar.

Kjarninn

Með þessum flotta sigri í kvöld sér undirritaður ekki annað en að fallbaráttu liðsins sé lokið! Tölfræðilega gæti það mögulega enn gerst, en Arnar vildi kannski reyna að finna einhvern botn eftir ósigurinn í Grindavík með tali sínu um fallbaráttu. Á góðum degi er Stjörnumönnum treystandi til að veita liðunum í topp fjórum samkeppni í úrslitakeppninni, við skulum a.m.k. vona það.

Til að reyna að draga fram eitthvað jákvætt fyrir Blikana að leik loknum má benda á að það þarf karakter til að bíta frá sér eftir þvílíka útreið sem liðið fékk að þola fyrstu 13 mínútur leiksins eða svo! Það stefndi í 40-50 stiga tap en endaði með innbyrðispælingum undir lokin…sem gerði reyndar ekki mikið fyrir leikinn. Munu Blikar hanga á úrslitakeppnissæti? Undirritaður er ekki viss um að neinn í Kópavogi hafi minnsta áhuga á því…

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -