spot_img
HomeFréttirRassskelling í Röstinni

Rassskelling í Röstinni

KR-ingar sem spáð hefur verið Íslandsmeistaratitli á komandi tímabili, rassskelltu núverandi Íslandsmeistara úr Grindavík í fyrstu umferð Domions-deildarinnar í körfuknattleik og það í Röstinni, heimavelli Grindvíkinga. Lokatölur urðu 74-94. 
 Oft er stutt á milli í þessari frábæru íþrótt og eflaust hugsuðu margir Grindvíkingar sér gott til glóðarinnar þegar munurinn komst niður í 2 stig þegar lokafjórðungurinn var tæplega hálfnaður, 65-67 og Grindvíkingar með boltann. En KR-ingar slökktu þann vonarneista strax og hreinlega völtuðu yfir heimamenn það sem eftir lifði leiks og unnu lokamínúturnar 9-27.
 
Grindvíkingar byrjuðu leikinn betur og náðu troðslur frá Kendall Timmons og Ólafi Ólafssyni að kveikja í grindvískum áhorfendum en um leið og byrjunarliðsmönnum var skipt út af þá snerist valdataflið við og Grindvíkingar voru eftir það allan tímann að elta.
6 stigum munaði í hálfleik, 34-40 og í seinni hálfleik var sama uppi á teningnum, Grindvíkingar söxuðu niður forskot KR-inga sem gáfu jafnharðan í og hleyptu heimamönnum aldrei yfir. Þessi barningur stóð svo yfir þar til KR-ingar rassskelltu heimamenn á lokamínútunum eins og áður segir.
 
KR-ingar stóðu svo sannarlega undir spádómnum í kvöld en liðið virkar geysisterkt. Öflugt byrjunarlið með kana sem lítur út fyrir að vera mjög góður og ekki er svo amalegt að fá menn eins og Martin Hermannsson og Ingvald Magna Hafsteinsson fyrsta inn af bekknum.
Shawn Atupem var atkvæðamestur KR-inga og skoraði 27 stig. Martin kom eins og áður sagði, geysilega sterkur inn af bekknum og endaði með 18 stig og 4 stoðsendingar.  
 
Grindvíkingar voru einfaldlega nokkrum númerum of litlir fyrir KR-inga í kvöld. Eftir sterka byrjun var bara einfaldlega við ofjarl að etja. Eftir að hafa heldur betur fengið stóra vinninginn í Kana-lottóinu undanfarin ár þar sem báðir Kanar (+ Ryan Pettinella eftir áramót undanfarin tvö tímabil) voru framúrskarandi (Bullock og Watson 2011-2012 og Broussard og Zeglinski 2012-2013), er deginum ljósara að Grindvíkingar hafa ekki efni á að vera ekki með mjög öflugan Bandaríkjmann þetta tímabilið. Grindvíkingar voru með ógildan miða í fyrsta útdrætti og ekki var Kendall Timmons beint að heilla grindvíska áhorfendur upp úr skónum í kvöld.
 
Undirrituðum grunar samt sem áður að þetta sé leikmaður sem eigi að geta blómstrað í íslensku deildinni en oft á tíðum þurfa þessir „guttar“ sem koma beint úr háskóla, dágóðan tíma til að finna fjöl sína. Má því til stuðnings taka dæmi eins og Nick Bradford sem var víst á hálum ís fram að áramótum á fyrsta tímabili sínu með Keflavík og ekki var Marqus Walker sem varð tvöfaldur meistari með KR-ingum 2010-2011 tímabilið, ekki heldur áberandi fyrir áramót. Við vitum öll hvernig þessir leikmenn sprungu síðan út.
Ólafssynirnir Þorleifur og Ólafur voru bestu menn Grindavíkur í kvöld, ásamt hinum bráðefnilega Hilmi Kristjánssyni sem kveikti neista í lokaáhlaupi Grindvíkinga áður en KR-ingar stungu af. Sigurður Þorsteinsson skilaði tvöfaldri tvennu (12 og 12) en réði illa við Kana KR-inga. En að fá lítið frá Kana auk þess sem Jóhann Ólafsson skilaði litlu sem engu, er eitthvað sem Grindavík hefur ekki efni á og hvað þá á móti eins sterku liði og KR er.
 
Texti: SDD
 
Fréttir
- Auglýsing -