Í kvöld fer fram heil umferð í Domino´s deild kvenna en það er jafnframt tuttugasta umferð deildarinnar. Leiknar eru 28 umferðir í deildarkeppninni svo nú fer heldur betur að skýrast hverjir kveðji deildina, hverjir komist í úrslitakeppnina og hverjir sitji eftir með sárt ennið en þó enn miða upp á áframhaldandi þátttöku í deildinni. Allir fjórir leikir kvöldains hefjast kl. 19:15 og munu flestra augu vísast beinast að Hólminum þar sem topplið Snæfells tekur á móti Haukum sem verma 2. sæti deildarinnar.
Domino´s deild kvenna í kvöld:
KR – Keflavík
Njarðvík – Grindavík
Hamar – Valur
Snæfell – Haukar
Með kvöldinu í kvöld eru alls 16 stig í pottinum fyrir hvert lið og því enn ekki hægt að slá neinu föstu. Eins og staðan er í dag verður þó vart hjá því komist að telja Snæfell, Hauka og Keflavík tiltölulega örugg um sæti sín í úrslitakeppninni. Fjórða og síðasta sætið inn í úrslitakeppnina og baráttan um það eftirsóknarverða sæti verður svakaleg. Valur og KR þykja í dag líklegust til að hreppa hnossið á meðan Hamar, Grindavík og Njarðvík bítast um að varna sér frá falli í 1. deild kvenna á næstu leiktíð, jafnvel sú fullyrðing stendur þó veikum fótum því KR og Hamar hafa jafn mörg stig. Það er því í mörg horn að líta og munu liðin án nokkurs vafa selja sig dýrt í kvöld. Í Ljónagryfjunni verður athyglisverður slagur en þar mætast botnliðin Njarðvík og Grindavík. Þessi gæti skipt umtalsverðum sköpum um hvort liðið lifi vertíðina af.
Staðan í deildinni
| Nr. | Lið | U/T | Stig |
|---|---|---|---|
| 1. | Snæfell | 16/3 | 32 |
| 2. | Haukar | 13/6 | 26 |
| 3. | Keflavík | 13/6 | 26 |
| 4. | Valur | 9/10 | 18 |
| 5. | KR | 7/12 | 14 |
| 6. | Hamar | 7/12 | 14 |
| 7. | Grindavík | 6/13 | 12 |
| 8. | Njarðvík | 5/14 | 10 |
Mynd/ Ína og Njarðvíkingar fá Grindavík í heimsókn í Ljónagryfjuna í kvöld.



