spot_img
HomeFréttirRán í Keflavík!

Rán í Keflavík!

 Rán var framið nú rétt eftir klukkan 18:00 í dag í Toyotahöllinni þegar kvennalið Keflavíkur hirti þau stig sem í boði voru þegar Haukastúlkur mættu í heimsókn í Iceland Express deildinni.  Keflavík skoraði 8 síðustu stig leiksins og án þess að Haukar næðu að svara fyrir sig og halda þar með 4 stiga forystu á toppi deildarinnar. 
 Haukastúlkur settu strax tóninn í fyrsta fjórðung og mættu töluvert beittari til leiks. Þær uppskáru eftir því og leiddu nánast allan fyrri hálfleik.  Vörn þeirra var ágæt en það var hinsvegar sóknarleikur Keflavíkur sem var hreint út sagt í lamasessi.  Boltinn gekk illa og þau kerfi sem voru í gangi voru illa framkvæmd.  Allar hlupu jú sína línur en það var allt og sumt.  Einnig fór það illa með sóknarleik þeirra að í hvert skipti sem sóknarkerfi voru komin í gang stoppuðu þau oftast nær á Jaleesu Butler sem ætlaði sér að klára allar sóknir.   Á meðan spiluðu Haukar við hvurn sinn fingur og hittu vel.  Þetta skilaði þeim 14 stiga forskoti í hálfleik.  Annar fjórðungur var hrein martröð fyrir Keflavík þar sem þær náðu aðeins að skila 7 stigum ofaní gegn 20 stigum Hauka. 
 
Í seinni hálfleik hófu Keflavík að spila stífari vörn og við það breytist leikurinn gersamlega. Leikurinn varð jafnari en þó þannig að liðin voru einfaldlega að skiptast á körfum og það dugði Keflavík skammt eftir afar dapran fyrri hálfleik.  Það var hinsvegar fjórði fjórðungur sem gerði útslagið í þessum leik.  Flest virtist stefna í það að Haukar myndu landa nokkuð óvæntum sigri á toppliði Keflavíkur.  Þegar um fimm mínútur voru til leiksloka höfðu Haukar 12 stiga nokkuð þægilegt forskot.  Og þó..það er kannski ekkert sem heitir þægilegt forskot þegar þú spilar gegn Keflavík í Keflavík.  Hægt og rólega unnu Keflavík upp muninn og þegar um mínúta var til leiksloka leiddu gestirnir 70:75.  En það voru Keflavíkurstúlkur sem sýndu gríðarlegan karakter og seyglu og skoruðu síðustu 8 stig leiksins og hreinlega stálu sigrinum 78:75. 
 
Stigahæst hjá heimastúlkum var Jaleesa Butler með 24 stig og 10 fráköst. Næst kom Pálína Gunnlaugsdóttir með 20 stig. Shanika Butler er hægt og rólega að komast inní leik Keflavíkur en hún setti niður 14 dýrmæt stig þetta kvöldið. d
 
Hope Elam var stigahæst hjá Haukum með 24 stig og 12 fráköst en næst hennivar svo Jence Ann Rhoads með 21 stig og 9 fráköst. 
Fréttir
- Auglýsing -