Miðherjinn Ragnheiður Benónísdóttir er komin aftur heim á Hlíðarenda eftir árs dvöl í Borgarnesi. Hún skrifaði í gær undir samning þess efnis. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Valsmönnum.
Í tilkynningunni segir einnig:
Ragnheiður spilaði að meðaltali 24,2 mínútur í leik, á síðasta tímabili, og skoraði að meðaltali 6,9 stig, tók 6,3 fráköst og átti 1,4 stoðsendingar. Ragnheiður er nýkomin heim úr landsliðsverkefni með A-landsliðinu á Írlandi þar sem Ísland lék tvo leiki við heimamenn.
Þetta höfðu þau að segja við undirskriftina:
Ragnheiður: „Ég er glöð að vera kominn aftur heim á Hlíðarenda. Ég var bara 14 ára þegar ég kom fyrst í Val og hér hef ég spilað lengst af mínum körfuboltaferli.”
Darri þjálfari Vals: „Það er frábært að fá Rönku aftur í Valsliðið. Hún mun gefa okkur nýja vídd á báðum endum vallarins og er öðruvísi en allir aðrir leikmenn deildarinnar. Við getum ekki beðið eftir komandi tímabili og munum halda áfram að æfa af fullum krafti þangað til.”