spot_img
HomeFréttirRagnheiður er á leiðinni heim eftir farsælan háskólaferil í Bandaríkjunum "Hefur hjálpað...

Ragnheiður er á leiðinni heim eftir farsælan háskólaferil í Bandaríkjunum “Hefur hjálpað mér að þróast bæði sóknarlega og varnarlega”

Hrunamaðurinn Ragnheiður Björk Einarsdóttir hélt vestur um haf fyrir tímabilið 2019-20 til þess að leika með California Baptist í efstu deild bandaríska háskólaboltans. Þar var hún til ársins 2021 þegar hún skipti yfir til Eckerd Tritons, sem er sterkur skóli í annarri deildinni.

Með Breiðablik í Dominos deildinni 2018

Ragnheiður hafði áður en hún fór út leikið með yngri flokkum heimaliðs síns í Hrunamönnum, síðan Haukum og loks með meistaraflokkum Hauka og seinna Breiðabliks, en hún var 15 ára gömul þegar hún þreytti frumraun sína með meistaraflokki Hauka tímabilið 2015-16. Þá var hún einnig hluti af öllum yngri landsliðum Íslands.

Í leik fyrir Ísland

Hjá Eckerd hefur hún verið í stóru hlutverki þessi síðustu tímabil, en á því sem nýlega kláraðist lék hún 25 mínútur að meðaltali í 31 leik og skilaði 7 stigum og 4 fráköstum að meðaltali. Liðinu gekk einkar vel þetta tímabilið, unnu 26 leiki og töpuðu 6, en þar af voru 18 deildarsigrar og aðeins 2 töp.

Karfan hafði samband við Ragnheiði og spurði hana út í tímann sinn í Bandaríkjunum, hvaða áhrif háskólaárin hafi haft á hana og hvað framtíðin bæri í skauti sér.

Nú ert þú búin að vera í nokkur ár úti, ertu sátt með hvað þú hefur náð að gera?

“Ég er mjög ánægð með upplifun mína og alla reynsluna sem ég mun taka með mér frá þessu ævintýri. Maður þroskast rosalega mikið á þessu. Hef prófað að spila í D1 og D2 núna og búið í bæði Californiu og Florida sem hefur verið æðislegt. Það var líka mjög gaman að vera partur af sögulegu tímabili hjá skólanum mínum, vorum rankaðar númer fimm í landinu um tíma, brutum fullt af skólametum sem lið, og svo var auðvitað geggjað að komast í fyrsta skipti í Sweet Sixteen í D2 NCAA tournamentinu.”

Hvað var erfiðast við að fara í háskóla í Bandaríkjunum?

“Fyrir mig var það að vera í burtu frá vinum og fjölskyldu. Mér finnst það samt hafa orðið mikið auðveldara með tímanum, þegar maður kemst vel inní hlutina hérna og eignast góða vini. Núna verður rosalega erfitt að fara frá öllu og flytja heim.”

Ert nú með reynsluna að hafa skipt um skóla úti, hver var helsti munurinn við skólana sem þú hefur verið í?

“Mér finnst ekki hafa verið mikill munur körfuboltalega séð á Cal Baptist og Eckerd. Hins vegar er mikill munur fjárhagslega séð á sumum D1 og D2 skólum og ég fann held ég mest fyrir því að körfuboltinn væri ekki í fyrsta sæti í Eckerd þegar ég var að koma frá skóla sem setti íþróttir og sérstaklega körfubolta í fyrsta sæti. Til dæmis vorum við með sex þjálfara í Cal Baptist en þau eru bara tvö með okkur í Eckerd. Samt sem áður hefur verið mikill stígandi í íþróttastarfinu í Eckerd og ég held að stór partur af því er að okkur hefur verið að ganga mjög vel og þjálfararnir okkar hafa náð í góða leikmenn.”

Hvaða áhrif hafði þetta á þig sem leikmann?

“Þessi breyting hafði þau áhrif á mig að mér leið betur í umhverfinu sem ég var í. Fannst ég vera miklu betra “fit” fyrir Eckerd á því leiti hvernig þau spiluðu minni stöðu. Ég er kannski ekki alveg týpíska fimman sem er bara inn í teig heldur meira hreyfanleg og að skjóta að utan og það er akkúrat hvernig við spilum. Hef einnig verið að spila bæði fjarka og fimmu sem hefur hjálpað mér að þróast bæði sóknarlega og varnarlega.”

Ertu sátt með hvernig þér og ykkur gekk á þessu síðasta tímabili?

“Ég er ánægð að mestu leyti með það hvernig okkur gekk en er líka smá svekkt að við náðum ekki sumum markmiðunum okkar. Vorum hópur af sex seniors sem höfðum allar spilað saman á tímabilinu áður þannig settum háar væntingar á okkur að ná langt á þessu tímabili. Við vorum rankaðar í top 10 á landsvísu í D2 yfir allt tímabilið. Samt sem áður náðum við ekki að komast í úrslit í deildinni okkar en enduðum í öðru sæti í deildarkeppninni. Svo komumst við inn sem annað sæti í regioninu okkar í NCAA tournamentið og komumst alla leið í Sweet Sixteen en töpuðum svo á móti góðu liði Tampa í úrslitum í regioninu. Það gekk illa hjá okkur að vinna Tampa á þessu tímabili þar sem við spiluðum við þær þrisvar og tapa þrisvar og þær enduðu á því að vinna deildina og regionið. Við misstum líka besta leikmann okkar í krossbandsslit á miðju tímabili en þrátt fyrir það var jákvætt að við náðum að vera taplausar þar til úrslitakeppnin byrjaði. Yfir allt er ég ánægð með að við unnum 26 leiki og töpðum aðeins 6 leikjum yfir allt tímabilið en svekkt að vinna ekki einhvernskonar titil á síðasta tímabilinu mínu í Eckerd.”

Hvernig er stemningin í St. Petersburg?

“St. Petersburg er æðisleg borg. Það er allt frekar frjálslegt hérna og sérstaklega í Eckerd. Þetta er mjög mikill túrista staður og manni líður stundum eins og maður sé á Ítalíu eða Spáni þegar maður er niðri í bæ eða á ströndinni. Mjög ólíkt Íslandi með veðurfar þar sem það er eiginlega alltaf hlýtt og gott veður. Maður er alltaf úti að gera eitthvað í frítímanum sem maður fær.”

Hvernig finnst þér körfuboltinn vera ólíkur því sem þú hafðir vanist heima?

“Mér finnst körfuboltinn hér vera miklu hraðari en heima. Svo er augljóslega mikill munur á því hversu mörg lið og leikmenn eru hérna miðað við heima þannig finnst vera meiri samkeppni.”

Verður þú áfram úti á næsta tímabili, eða hvert er förinni heitið eftir þetta?

“Ég er að útskrifast, en á eitt ár af eligibility eftir tæknilega séð af því að eftir Covid var gefið öllum eitt auka ár. En Eckerd bíður ekki uppá meistaranám þannig ég hef ákveðið að koma heim og vill halda áfram að spila í deildinni heima en það er ekkert annað ákveðið.”

Fréttir
- Auglýsing -